Styrkir eigi að nýtast við endurreisn samfélagsins
Styrkir til Grindavíkurbæjar vegna uppbyggingar samfélagsins nema samtals um átján milljónum króna. Þetta kemur fram í gögnum bæjarráðs Grindavíkur en minnisblað um styrki til Grindavíkurbæjar í kjölfar rýmingar Grindavíkurbæjar 10. nóvember 2023 var þar til umfjöllunar.
„Bæjarráð Grindavíkurbæjar færir öllum þeim sem stutt hafa við bakið á Grindvíkingum undanfarið ár einlægar þakkir. Stuðningurinn hefur verið ómetanlegur í krefjandi aðstæðum og sýnir stærð og styrk samfélagsins okkar. Hvert framlag, stórt sem smátt, hefur veitt okkur huggun, von og kjark sem gerir okkur kleift byggja okkur upp á ný, sigrast á ótal áskorunum og halda áfram,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
Þar kemur fram að alls hafa safnast rúmlega 17.940.000 kr. inn á söfnunarreikning í eigu Grindavíkurbæjar frá 10. nóvember 2023. Ekki hefur verið hreyft við því fjármagni. Litið hefur verið svo á að styrkirnir sem berast sveitarfélaginu eigi að nýtast við endurreisn samfélagsins og skuli þá horft til verkefna sem ekki eru lögbundin, m.a. til að efla samstöðu og fjölga samverustundum Grindvíkinga.
Þá segir að Grindavíkurbær hefur ekki heildaryfirsýn yfir aðrar safnanir sem fóru af stað í kjölfar hamfaranna síðasta vetur.