Suðurnesin urðu illa úti í efnahagshruninu
Í áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar, samstarfshóps um velferðarmál á Suðurnesjum, kemur fram að staðan á svæðinu er ekki eins og best verður á kosið. Skýrslan kom út á dögunum en Suðurnesjavaktin starfar á vegum velferðarvaktarinnar og var sett á fót í byrjun árs 2011 að ósk heimamanna með það að markmiði að efla samstarf sveitarfélaganna á svæðinu um velferðarmál og samvinnu við ríkisstofnanir og félagasamtök til að styrkja stöðu Suðurnesjanna.
6,6% af heildarmannfjölda landsins
Á Suðurnesjum eru sveitarfélögin Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar og Sandgerðisbær. Íbúafjöldi á svæðinu er 21.242. Samfélagið á Ásbrú telst hluti af Reykjanesbæ en þar búa um 1800 íbúar. Frá síðasta ári hefur íbúum fjölgað um 154 en mest fjölgun íbúa hefur orðið á Ásbrú. Íbúar á Suðurnesjum eru 6,6% af heildarmannfjölda landsins. Eldri borgarar á Suðurnesjum eru um það bil 3.000 talsins en hlutfall eldri borgara af íbúafjölda er lægst á Suðurnesjum miðað við aðra landshluta eða 14,1%. Næst á eftir er höfuðborgarsvæðið með 17,3% íbúa yfir 60 ára aldri en Norðurland vestra er með hæsta hlutfallið eða 22%. Þrátt fyrir þetta er félag eldri borgara á Suðurnesjum annað fjölmennasta félagið á landinu með um 2.000 félagsmenn.
9,8% Suðurnesjamanna 16 - 66 ára á örorkulífeyri
Síðustu ár hafa Suðurnesin skorið sig úr í samanburði við önnur landsvæði sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi, lágt menntunarstig og fjölda öryrkja. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 2011 eru 7,4% einstaklinga á aldrinum 16 - 66 ára á örorkulífeyri miðað við landið allt. Á Suðurnesjum eru 9,8% einstaklinga á þessum aldri á örorkulífeyri en árið 2010 var hlutfallið 8,8%. Sé litið til ársins 2003 er staðan önnur en þá var hlutfall örorkulífeyrisþega á Suðurnesjum 6,6% og svæðið skar sig ekki úr miðað við aðra landshluta. Þá var hlutfall örorkulífeyrisþega á Norðurlandi eystra 7% og í Reykjavík 6,7%. Frá og með árinu 2007 fór örorkulífeyrisþegum á Suðurnesjum að fjölga og svæðið fór að skera sig úr samanborið við aðra landshluta og hefur gert síðan. Velta má fyrir sér hvort brotthvarf varnarliðsins árið 2006 hafi haft einhver áhrif á þessa þróun en margir starfsmenn varnarliðsins voru komnir á efri ár þegar varnarliðið fór af svæðinu og áttu hugsanlega í meiri erfiðleikum með að finna annað starf. Af þeim 1154 einstaklingum á landinu sem eru á endurhæfingarlífeyri eru 94 á Suðurnesjum eða 8%.
Svæðið varð fyrir verulegu áfalli við brotthvarf varnarliðsins árið 2006 en þá má segja að þeir erfiðleikar sem Suðurnesin standa frammi fyrir í dag hafi hafist fyrir alvöru. Suðurnesin urðu einnig illa úti í efnahagshruninu haustið 2008 í samanburði við aðra landshluta. Á svæðinu hefur nauðungarsölum farið fjölgandi og eignir Íbúðalánasjóðs eru flestar á Suðurnesjum. Umboðsmaður skuldara opnaði útibú í Reykjanesbæ í desember 2010 til þess að mæta auknu álagi á svæðinu.
Lítið þokast í nýjum atvinnutækifærum
Suðurnesjabúar hafa undanfarið beðið eftir nýjum atvinnutækifærum en lítið hefur þokast í þeim málum. Með tilliti til aðstæðna á svæðinu hafa stjórnvöld reynt að bregðast við með ýmsum hætti. Iðnaðarráðuneytið lagði til að mynda til fjármagn í stofnun atvinnuþróunarfélags, velferðarráðuneytið lagði svæðinu lið með Suðurnesjavaktinni sem starfar á vegum velferðarvaktarinnar og mennta- og menningarmálaráðuneytið beitir sér fyrir eflingu menntunar og fjölbreyttari námstækifærum á svæðinu.