Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þetta er pandórubox að opna
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 28. júní 2023 kl. 15:55

Þetta er pandórubox að opna

– segir Friðjón Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, vegna máls Jakub Polkowski sem hefur verið í sviðsljósi íslenskra fréttamiðla frá því að RÚV fjallaði um það í fréttum í gær.

„Formlegi hlutinn í þessu máli er sá að sveitarfélagið þekkir til þessarar fjölskyldu og hefur gert lengi. Við höfum aðstoðað þau eftir bestu getu,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar þegar hann var inntur eftir því hvað Reykjanesbær gæti hafa aðhafst í máli fjölskyldunnar Jakukb Polkowski við Hátún í Keflavík. 

„Hvað varðar þetta einstaka mál, uppboð á eigninni þeirra, höfum við aldrei fengið vitneskju um það fyrr en eftir að uppboði var lokið og eignin seld.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eignin sem um ræðir var seld á nauðungaruppboði hjá sýslumanninum á Suðurnesjum í september á síðasta ári. Jakub Polkowski og fjölskylda hans hefur búið í húsinu frá árinu 2018 en verður borin út úr á föstudag vegna vangoldinna fasteignagjalda, trygginga og orkureikninga. Samanlögð upphæð krafna nam um tveimur og hálfri milljón króna en Jakub hafði keypt húsin og greitt það að fullu. Verðmat eignarinnar er 57 milljónir sem var seld á þrjár milljónir á uppboði.

Í fréttum RÚV sagðist Jakub ekki hafa vitað af uppboðinu, þrátt fyrir það birtust þrívegis uppboðsauglýsingar frá sýslumanni í Víkurfréttum [38. tbl. 2020, 42. tbl. 2021 og 32. tbl. 2022] áður en til nauðungarsölunnar kom. 

Á vef DV í dag kemur fram að Jakub Polkowski hafi hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir fíkniefnasölu, fjárþvætti og brot á vopnalögum. Þá hafi lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af Jakub og lagt hald á fíkniefni og vopn að ýmsu tagi á heimilinu. Nágrannar munu hafa orðið fyrir miklu ónæði frá húseigninni að Hátúni 1 vegna umgangs og tíðra gestakomu.

Þið heyrið kannski af þessum í fréttum eins og aðrir?

„Já, ég heyrði fyrst af þessu í fréttum í gærkvöldi en eignin var seld í september 2022 og þau hafa dvalið í húsinu síðan. Það var á þessum tímapunkti sem við hefðum mögulega getað stigið inn í ef við hefðum fengið upplýsingar um það. Á engum tímapunkti lét fjölskyldan okkur vita að þau væru í einhverju vandræðum með húsið.“

Þannig að eins og staðan er núna þá getið þið ekki gert neitt í málinu?

„Við getum ekki gert eitt eða neitt, annað en það að heyra í kaupandanum. Hvort hann sé tilbúinn að gera eitthvað í þessu máli. Ég er að reyna að ná sambandi við kaupandann og sjá hvort það er einhver grundvöllur á því.

Eina sem við getum í raun og veru gert er að útvega þeim húsnæði og það er í forgangi hjá okkur. Við munum finna húsnæði fyrir þau.“

Er það kannski brotalöm á kerfinu, að embætti sýslumanns skuli ekki setja sig í samband við velferðasvið Reykjanesbæjar og upplýsa sveitarfélagið um stöðu mála?

„Það er siðferðisleg spurning hvort sýslumaður, í einhverjum undantekningartilfellum eins og þessu, hefði hugsanlega átt að setja sig í sambandi við okkur. Þá væri hún [Ásdís Ármannsdóttir] auðvitað að gæta hagsmuna húseigenda en ekki endilega hagsmuna þeirra sem eru að kaupa húsið.

En ég held að fyrst dómsmálaráðuneytið er farið að skoða málið, eða ráðherra, þá hugsanlega hefði sýslumaður getað stoppað uppboðið af því að kaupverð var svo lágt,“ segir Friðjón en eignin var seld fyrir um 5% af metnu andvirði hennar.

„Þetta er pandórubox að opna, hvenær á sýslumaður að hringja og hvenær ekki? Hvar skuli draga mörkin.“

Friðjón segir að Reykjanesbær hefði getað á einhverjum tímapunkti getað stigið inn í þetta mál með einhverjum hætti; „... en við hefðum aldrei getað gert það nema með vitund og vilja fjölskyldunnar – sem hefur aldrei hnippt í okkur út af þessu máli.“

Þrátt fyrir að vera að þiggja hjálp frá Reykjanesbæ?

„Einmitt,“ sagði Friðjón og bætti við að þetta væri sorgleg harmsaga.

„Svo fara þingmenn á flug eftir að hafa horft á fréttirnar, án þess að vita neitt um málið. Þeir hafa ekki brugðist svona hratt við heilbrigðis- eða hælisleitendamálunum hér í Reykjanesbæ. Menn velja sín stríð,“ sagði Friðjón að lokum.