Þétting byggðar og líf í miðbæinn
- Eysteinn Eyjólfsson, formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar
Eysteinn Eyjólfsson, formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, segir það vera keppikefli sitt á þessu kjörtímabili að tryggja íbúum Reykjanesbæjar sem mesta og besta aðkomu að skipulagsmálum – og segist þeirrar skoðunar að því fleiri sem koma að því að móta bæinn okkar til framtíðar, því betra.
Hefur verið unnin heildræn stefna um miðbæinn og hvaða áherslur liggja til grundvallar?
„Við höfum nýlokið við endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar sem hófst á íbúaþingi í september 2015 þar sem hugmyndir íbúanna, m.a. um þéttingu byggðar, gáfu Umhverfis- og skipulagsráði tóninn inn í skipulagsvinnuna. Vinnutillaga var síðan lögð fyrir fyrir íbúafund í sumarbyrjun 2016 og auglýst var eftir athugasemdum síðasta haust sem stýrihópur vann síðan úr með góðri hjálp starfsmanna USK og annarra fagmanna og lagði til fyrir bæjarstjórn sem samþykkti.
Ekki komu hugmyndir fram við endurskoðun aðalskipulagsins um að breyta skipulagsáherslum miðbæjarins okkar en á síðasta kjörtímabili var deiliskipulag samþykkt fyrir Grófarsvæðið og smábátahöfnina sem m.a. gerði ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu DUUS húsanna. Uppbyggingin hefur haldið áfram og Gamla búð við Keflavíkurtúnið er taka á sig sína fyrri mynd. Næsta skrefið að mínu mati ætti að vera að fara í fornleifauppgröft á tóftunum á Keflavíkurtúninu og gera í framhaldinu vandaða umgjörð um þær.“
Hvernig sjá bæjaryfirvöld fyrir sér uppbyggingu á þessum reit?
„Endurbygging Fischershúss hefur líka ekki farið framhjá neinum en það verður glæsilegra með hverjum degi. Auk þess er verið að rífa fiskverkunarhús frá miðri síðustu öld á reitnum en þess gætt að hrófla ekki við sögulegum minjum eins og steingarðinum sem H.P. Duus reisti. Metnaðarfullar hugmyndir hafa verið reifaðar um uppbygggingu á þjónustu- og menningartengdri starfsemi á Fischerstorfunni í húsum sem taki mið af byggarstíl Gamla bæjarins í gömlu Keflavík þar fyrir ofan. Mér hugnast þær hugmyndir vel og tel að lóðareigandi, Reykjanesbær, ætti að standa fyrir opinni hönnunarsamkeppni um reitinn og tryggja að þar þrífist fjölbreytt menningar- og þjónustustarfsemi.
Sem kunnugt er þá hafa einkaaðilar sem eiga lóðina að Hafnargötu 12 áform uppi um að byggja þar íbúðir. Þeir fengu leyfi hjá USK að setja í auglýsingu hugmyndir sínar um uppbyggingu á lóðinni að því gefnu að þeir héldu kynningarfund fyrir íbúa. Miklar og margar athugasemdir bárust frá íbúum og ráðið hafnaði í kjölfarið tillögunum. Í framhaldinu þá setti USK nánari deiliskipulagsskilmála fyrir lóðina sem tóku mið af athugasemdunum frá íbúum og opinberum stofnunum. Fram eru komnar nýjar tillögur sem gera ráð fyrir byggingarstíl í samræmi við aðra byggð í nágrenninu og helmingi færri íbúðir og hafa þær verið auglýstar. Sem fyrr hvet ég sem flesta bæjarbúa að skoða tillöguna á reykjanesbaer.is og senda inn athugasemdir.
Ég er þeirrar skoðunar að bygging smærri íbúða í hóflega magni á þessum reit í samræmi við ríkjandi byggðamynstur komi til móts við óskir um þéttingu byggðar og færi líf í miðbæinn. Íbúðauppbygging á þessum reit rími líka vel við uppbyggingu menningar- og þjónustu á Fisherstorfu og við Keflavíkurtúnið. Samhliða þessu væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi og reisa lágræsta dælistöð fyrir holræsakerfið í Bakkalág við miðbik Keflavíkurinnar sem nýst gæti einnig sem svið á Ljósnótt og öðrum hátíðum. Svo fikrum við okkur upp Hafnargötuna og höldum áfram að flikka upp á hana og taka auðu svæðin á henni í fóstur og glæða hana lífi.“