Fréttir

  • Tímamótasamningur um uppbyggingu miðsvæðis í Reykjanesbæ
    Sigurður Ingi Jóhannsson og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir handsala samninginn. VF/JPK
  • Tímamótasamningur um uppbyggingu miðsvæðis í Reykjanesbæ
    Samningurinn undirritaður.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 29. nóvember 2024 kl. 06:48

Tímamótasamningur um uppbyggingu miðsvæðis í Reykjanesbæ

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra, og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirrituðu í síðustu viku samkomulag milli ríkis og Reykjanesbæjar vegna uppbyggingar akademíureitsins svokallaða.

Akademíureiturinn er land í eigu íslenska ríkisins (Sunnubraut 35 sem afmarkast af Sunnubraut til vesturs, Þjóðbraut til norðurs, Afreksbraut til suðurs og Frekjunni til austurs) en með þessu samkomulagi koma aðilar sér saman um að vinna að frekari þróun og þéttingu byggðar á reitnum fyrir miðbæjartengda starfsemi.

Stefnt er að því að auka byggingarmagn reitsins úr 20.000 m² í 54.600 m² og er áformað að 20% af því byggingarmagni verði undir íbúðabyggð, eða um 120 íbúðir, 43.600 m² er svo áætlað undir verslun og þjónustu. Um er að ræða þróunarverkefni þar sem gert er ráð fyrir útboði um þróun á deiliskipulagsgerð á reitnum.

Viðreisn
Viðreisn
Akademíureiturinn afmarkast af Sunnubraut til vesturs, Þjóðbraut til norðurs, Afreksbraut til suðurs og Frekjunni til austurs. Skjáskot/Kortasjá Reykjanesbæjar

„Þessi verkefni haldast í hendur“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, starfandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir mikil samlegðaráhrif vera á milli uppbyggingar og þróunar akademíureitsins og uppbyggingu íþróttamannvirkja við Afreksbraut.

Eru einhver drög að uppbyggingu farin að myndast á þessum reit?

„Já, við vorum búin að vinna ákveðin drög að skipulagslýsingu sem felur í sér að þarna verði verslun og þjónusta á jarðhæð og síðan íbúðir á efri hæðum. Það á eftir að vinna það nánar og við, sveitarfélagið, sjáum algjörlega um skipulagsvinnuna. Þannig að við skipuleggjum þetta en sjáum fyrir okkur að bjóða út og fá til okkar einhverja áhugasama þróunaraðila sem vilja þennan reit með okkur þannig að hann nýtist bæði íbúum og þeim sem heimsækja okkur sem best.“

Samkvæmt þessu þá er nálægt þreföldun á byggingarmagni sem á að koma fyrir á þessum reit – og nóg er plássið. Væri ekki í raun og veru hægt að koma meiru fyrir?

„Það á eftir að koma í ljós. Við gerum ráð fyrir þessu, 120 íbúðum, og erum að auka nýtingu á lóðinni. Nú byrjar sú vinna af fullum krafti.

Það er allt undir í þessu. Við eigum eftir að fá hugmyndir og við höfum kannski einhverja hugmynd og svo kemur einhver þróunaraðili, eins og við sjáum að gerðist á Selfossi og er núna að gerast í Borgarnesi, sem er með einhverjar ennþá betri hugmyndir. Þannig að við þróum þetta saman – og íþróttaakademían er hluti af þessum þróunarreit. Þannig að við sjáum fyrir okkur að hún verði seld inn í þróunarverkefni, þannig að við eigum eftir að sjá breytingu á nýtingu á þessum reit.

Samhliða því munum við hefja uppbyggingu á íþróttasvæðinu við Afreksbraut. Þannig að þessi tvö verkefni haldast í hendur.“

Ef akademían verður seld þá er fimleikadeildin komin út á guð og gaddinn.

„Nei, samt ekki. Við sjáum fyrir okkur að ef við auglýsum akademíuna til sölu, og einhverjir áhugasamir aðilar vilja koma inn í það, að við gerum einhverskonar samkomulag um að geta nýtt þessa aðstöðu á meðan við erum að byggja nýtt hús. Við sjáum að það eru ofboðslega mikil samlegðaráhrif á milli þessa tveggja verkefna.“

Hvernig er staðan á þeirri vinnu? Er einhver hönnunarvinna farin af stað?

„Hönnunin er mjög langt komin. Jón Stefán Einarsson, arkitekt á JeEs arkitektar, er að vinna það með okkur og það er verið að vinna það í nánu samstarfi við íþróttafélögin. Það er búið að kynna þetta fyrir þeim og taka inn þeirra óskir og væntingar, þetta er bara mjög langt komið.“

Ertu með einhverjar tölur um umfangið á þessu mannvirki? Stendur til að koma sem flestum deildum þarna inn og hætta að leigja undir þær húsnæði víðsvegar um bæinn eins og nú er gert?

„Ég er ekki með neinar tölur í kollinum en þarna stendur til að byggja 1.500 manna stúku fyrir knattspyrnuna, reisa fimleikahúsið og vera með sali fyrir aðrar deildir, sem eru nú í víkjandi húsnæði. Við verðum með skrifstofuaðstöðu fyrir bæði Keflavík og Njarðvík þarna, það stendur til að sú aðstaða verði samnýtt þarna. Við verðum líka með sali sem verður hægt að leigja út, bæði tekjuskapandi fyrir félögin og líka þar sem þau geta haldið sitt eigið. Í framhaldinu verður byggður skóli þarna á svæðinu með skólaíþróttahúsi. Þetta verður risastórt og mjög spennandi verkefni.“

Halldóra segir að þarna verði margir æfingavellir fyrir knattspyrnuna en í skýrslu sem var unnin í sambandi við íþróttastarf í Reykjanesbæ var aðstaða fyrir knattspyrnudeildirnar og fimleikana merkt með eldrauðu, þar á eftir komu þessar deildir sem eru í víkjandi húsnæði.

Þannig að þetta verður eitt stórt íþróttasvæði, Laugardalurinn í Reykjanesbæ. Það vantar bara þjóðarleikvang.

„Við erum samt að gera ráð fyrir því að fótboltavöllurinn sem verður þarna, aðalvöllurinn, muni uppfylla skilyrði sem þarf að uppfylla til að halda landsleiki. Við erum með frábæran hóp sem stýrir þessu verkefni, þar er t.d. einn sem er í mannvirkjanefnd KSÍ [Knattspyrnusambands Íslands]. Þannig að við erum að gera ráð fyrir að geta haldið landsleiki, ef það verða ekki A-landsleikir þá erum við alla vega að horfa í U21 árs. Þannig að við getum boðið upp á þennan völl til þess.“

Það eru skemmtilegar fréttir. Þannig að það er ekkert verið að tjalda til einnar nætur þarna.

„Nei, við viljum ekki gera það en það skiptir máli að íþróttafélögin séu saman í þessu. Það verði samvinna á milli þeirra því það er miklu einfaldara fyrir okkur að gera einu sinni frábært en við munum líklega ekki ná að gera það á sitthvorum staðnum.

Mér finnst allir vera að ganga í takt og þess vegna skiptir þessi samvinna á milli þessara félaga svo miklu máli.“

Sveitarfélagið stýrir allri þróun og uppbyggingu svæðisins

Ráðherra sagði það vera stórt skref fyrir Reykjanesbæ að geta hafið skipulagningu á reitnum sem er á besta stað, miðsvæðis í bænum.

„Ríkið á lóðir og lendur víða, þar sem eru einmitt svona göt í þróuninni,“ sagði Sigurður og átti þá við lóðir sem standa illa nýttar og hamla jafnvel uppbyggingu innan sveitarfélaga. „Húsnæðisstefnan sem var samþykkt á þingi og stefna ríkisstjórnarinnar er að örva húsnæðisuppbyggingu, að koma þessum lóðum og lendum til sveitarfélaganna sem geta þá farið að virkja þær. Til dæmis með svona samkomulagi eins og við gerum í dag, þar sem ríkið á áfram landið en í góðu samkomulagi við sveitarfélagið hvernig við skiptum ábatanum af uppbyggingunni en tryggjum að sveitarfélagið hafi alla stýringu á þróun og uppbyggingu þess í anda sem viðkomandi sveitarfélag vill.“

Þannig að það eru engin drög komin að einhverri uppbyggingu þarna, þetta er kannski bara fyrsta skrefið.

„Þetta er fyrsta skrefið af okkar hálfu, ég veit að sveitarfélagið hefur verið með í bígerð og ég býst við að þarna verði spennandi þróunarreitur til þess að búa til skemmtilegan miðbæjarkjarna hérna í Reykjanesbæ.“