Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ungmennaráð Reykjanesbæjar lét bæjarstjórn „heyra það“
Fulltrúi Myllubakkaskóla var ekki ánægð með stöðuna í skólanum eftir að starfsemin var flutt vegna myglu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 27. nóvember 2021 kl. 07:30

Ungmennaráð Reykjanesbæjar lét bæjarstjórn „heyra það“

Ungmennaráð Reykjanesbæjar var með margar ábendingar og kvartanir til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á sameiginlegum fundi í Hljómahöll 16. nóvember. Ungmennaráðið fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli og í tilefni þeirra tímamóta kynnti það nýtt merki ráðsins.

Tíu ungmenni í ráðinu fluttu ræður þar sem þau bentu á hin ýmsu mál sem þau töldu mikilvægt að laga eða framkvæma. Var nokkuð harður tónn í máli ungmennanna sem töldu að gera þyrfti miklu betur í þeirra þáttum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðal málefna sem þau bentu á var aðgengi fatlaðra að hinum ýmsu stofnunum og stöðum í Reykjanesbæ. Kvíði og vanlíðan marga ungmenna var eitt af því sem kom fram í ræðu nokkurra þeirra en stór hluti ungmenna, og þá sérstaklega stúlkur, metur andlega heilsu sína slæma. Fulltrúi nemenda á Ásbrú benti á að betrumbæta þyrfti skólalóðina þar og víðar og aðstöðu nemenda í skólanum. „Af hverju eru ungmenni ekki höfð í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir um marga hluti?“ Þá nefndu ungmennin að bæta þyrfti bókaúrval í bókasafninu og auka þyrfti við sálfræði- og sérfræðiþjónustu, helst að það væri sálfræðingur í hverjum skóla. Þá vantar betri félagsaðstöðu í Innri-Njarðvík. „Það er of langt fyrir okkur sem búum þar að fara í Fjörheima. Unglingar í Innri-Njarðvík og Ásbrú fara ekki í (félagsmiðstöðina) Fjörheima því það er of langt fyrir þá að fara. Um 70% þeirra sem sækja Fjörheima eiga heima nálægt félagsmiðstöðinni,“ sagði einn ræðumanna ungmennaráðs. Fulltrúi úr Myllubakkaskóla fór hörðum orðum um flutning starfseminnar á marga staði í bæjarfélaginu vegna myglunnar og kvartaði sáran yfir aðstæðum sem boðið er upp á. Ein af mörgum hugmyndum ræðumanna ungmennaráðs var að gera svokölluð „tjill-skýli“ á skólalóðir skólanna þar sem nemendur gætu hist og spjallað.

„Betsý Ásta Stefánsdóttir, formaður ungmennaráðs, hefur setið í því í þrjú ár og var ekki ánægð með viðbrögð bæjaryfirvalda gagnvart mörgum óskum ungmenna í bæjarfélaginu. „Ég er búinn að mæta á fimm fundi með bæjarstjórn á þessum þremur árum og við höfum náð sáralitlu í gegn eftir þessa fundi,“ sagði Betsy Ásta sem sagði að t.d. væri strætóáætlun alls ekki góð fyrir Innri-Njarðvík. Strætó gengi ekki nógu lengi á laugardögum og alls ekki á sunnudögum. „Hvað eiga ungmenni sem stunda íþróttaæfingar að gera? Af hverju erum við ekki höfð í ráðum þegar svona ákvarðanir eru teknar?“

Rödd barna og ungmenna skiptir miklu máli fyrir bæinn

Ungmennaráð Reykjanesbæjar er formlegt fulltrúaráð skipað fulltrúum allra grunnskóla og annarra æskulýðshópa sem starfa innan Reykjanesbæjar. 

Ungmennaráðið tók nýlega þátt í ungmennaþingi sem haldið var á vegum verkefnisins barnvæns sveitarfélags. Ráðið safnaði fyrir 9 manna bíl fyrir nokkrum árum sem Fjörheimar/88húsið hefur afnot af, ráðið fékk styrk á sínum tíma til að setja upp ungmennagarðinn við Fjörheima og 88 húsið og ráðið hefur einnig kostað margvíslegar fræðslur fyrir ungmenni bæjarins. 

Ungmennaráðið fundar tvisvar sinnum á ári með bæjarstjórn og eru helstu baráttumál ungmennaráðsins í vetur umhverfismál og flokkun, tryggja jöfn tækifæri barna og ungmenna sama í hvaða hverfi þú býrð, vekja athygli á andlegri heilsu barna og ungmenna sem er í sögulegu lágmarki og umfram allt fá meiri þjónustu fyrir unglinga og ungmenni í bæjarfélagið en þar finnst okkur margt hægt að bæta og þá sérstaklega miðað við nærliggjandi sveitarfélög og sveitarfélög í svipaðri stærð og Reykjanesbær

Rödd barna og ungmenna skiptir miklu máli fyrir bæinn en oft getur verið erfitt að fyrir börn og ungmenni koma sinni hugmynd á rétta staði en þá geta þau sent á okkur skilaboð á @ungrnb á bæði Instagram, Face-book eða á netfangið [email protected] og ungmennaráðið kemur hugmyndinni þeirra til skila!

Tíu ungmenni fluttu ræður sem nær allar innhéldu þeirra óskir og sömuleiðis ábendingar um ýmislegt sem betur megi fara.

Ábendingar og óskir ungmennanna voru allt frá því að veita betri sálfræðiþjónustu yfir í „tjill-skýli“.

Betsý Ásta, formaður ungmennaráðs, afhenti Hafþóri Birgissyni heiðursverðlaun ráðsins og blóm en Hafþór hefur unnið með unga fólkinu síðasta áratuginn með miklum sóma.