Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Fréttir

Vatnsleysi í Grindavík getur haft mjög alvarlegar afleiðingar
Gísli að bera fram spurningar á fundinum á fimmtudaginn.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. nóvember 2023 kl. 07:00

Vatnsleysi í Grindavík getur haft mjög alvarlegar afleiðingar

Hundruð milljóna tjón ef það verður vatnslaust í Grindavík

„Ef húsin okkar fá ekki hita, munu lagnir springa og þá er ljóst að tjónið hleypur á hundruðum milljóna og ef við íbúarnir erum ekki tryggð, hvers eigum við að gjalda,“ segir Gísli Þorláksson íbúi í Grindavík.

Í lok íbúafundarins í Grindavík á fimmtudag var opnað fyrir spurningar úr sal og vöktu spurningar og pælingar Gísla, mikla athygli og hlaut hann lófaklapp að loknum spurningunum. Hann gagnrýndi aðgerðarleysi HS Orku og HS Veitna og vakti athygli á svari Huldu Ragnheiðar Árnadóttur, forstjóra Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Síðast en ekki síst beindi hann gagnrýni að fréttaflutningi þar sem fréttamaður í sjónvarpi var hálfhlæjandi þegar viðtal var tekið vegna þessarar alvarlegu stöðu.

SSS
SSS

Gísli eins og flestir ef ekki allir Grindvíkingar, fann fyrir skjálftunum aðfaranótt föstudags. „Þetta var erfið nótt, ekki nóg með að maður hafi fundið vel fyrir þessum skjálftum, heldur fóru þjófavarnarkerfi bíla í gang við mesta hristinginn svo maður hefur oft sofið betur. Annars gat ég ekki annað en gagnrýnt forsvarsfólk HS Orku og HS Veitna en mér finnst fáránlegt að eftir tæp þrjú ár þar sem þrisvar sinum hefur gosið nálægt Grindavík, að varaáætlun sé ekki til staðar ef þessi grafalvarlega staða kæmi upp, að heitavatnslaust yrði inn á þessi svæði. Þegar forstjóri hamfaratrygginga talaði, var ég í raun reiður. Ef húsin okkar fá ekki hita, munu lagnir springa og þá er ljóst að tjónið hleypur á hundruðum milljóna og ef við íbúarnir erum ekki tryggð, hvers eigum við að gjalda? Maður gat séð og heyrt á svörum forsvarsmanna þessara fyrirtækja að ekkert er búið að gera, það er mjög alvarlegt í mínum huga. Ef það mun vanta vatn inn í plássið, þá er ekki hægt að búa hér og það er að koma vetur, það er að kólna. Það þýðir ekki fyrir þessa aðila að benda á aðra eins og almannavarnir, það eru þeir sem eru að selja okkur vatnið og þeir eiga að ganga úr skugga um að þessi mál séu í lagi. Ef þeir þurfa aðstoð, eiga þeir að sækja sér þá aðstoð. Annað sem er mjög gagnrýnivert en það er engin vararaflína til Grindavíkur, öll hin sveitarfélögin á Suðurnesjum munu geta fengið það rafmagn sem þau þurfa en við verðum háð ljósavélum og getum keyrt tvo rafmagnsblásara, af hverju er ekki fyrir löngu búið að leiða vararafstreng til Grindavíkur?“

Gísli gagnrýndi líka fréttaflutning í vikunni en þá var fréttamaður í sjónvarpi hlæjandi þegar þessi grafalvarlegu mál voru rædd. „Í viðtali við Kristínu hjá Veðurstofunni, fór fréttakonan að hlæja. Það finnst mér ekki við hæfi, það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir alvarleika stöðunnar. Ellefu ára gamalt barnabarn mitt sá þetta með mér og var pirrað, það að ellefu ára gömlu barni sé misboðið, segir kannski meira en allt,“ sagði Gísli að lokum.

Gísli Þorláksson