VF 1988: „Fá ekki grænan túskilding“
– segir Ellert Eiríksson, sveitarstjóri í Garði, um merkingar Vegtaks.
„Starfsmenn Vegtaks hafa sérhæft sig í vinnu við vegnterkingar. Metnaður okkar er lagður í góða þjónustu og fagleg vinnubrögð.“ Svohljóðandi línur getur að lesa í kynningarblaði frá fyrirtækinu Vegtaki sf. úr Reykjavík, sem tók að sér að merkja þrjár aðalgötur Gerðahrepps: Garðbraut, Heiðarbraut og Gerðaveg.
„Ég hef ekki orðið fyrir eins miklum vonbrigðum í langan tíma,“ sagði Ellert Eiríksson, sveitarstjóri í Garði, er Víkurfréttir spurðu hann út í umræddar merkingar. „Þessir menn þykjast vera vanir en þau vinnubrögð, sem þeir sýndu við merkingarnar hér í Garðinum, eru í engu samræmi við auglýsingabækling þann er þeir sendu okkur.“
Óhætt er að taka undir orð Ellerts, því ef ekið væri eftir linunni á Garðbrautinni væri ökumaðurinn örugglega álitinn ölvaður.
„Þetta sama fyrirtæki er að taka að sér merkingar í öðrum byggðarlögum á Suðurnesjum, s.s. Sandgerði og Grindavík. Það versta af þessu öllu er að ekki er hægt að ná ósómanum af götunum. Svo mikið er víst að þeir fá ekki grænan túskilding greiddan fyrir „verk“ þetta,“ sagði Ellert Eiríksson, sveitarstjóri.
VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 16. júní 1988.