Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

VF 1993: „Man hvernig ég rúllaði undir bílnum“
Föstudagur 12. febrúar 2021 kl. 12:07

VF 1993: „Man hvernig ég rúllaði undir bílnum“

Úr Víkurfréttum fimmtudaginn 9. desember 1993

Halldór Gíslason, sjö ára drengur úr Höfnum, slapp nær ómeiddur eftir að hafa lent undir bíl í Höfnum á mánudagskvöld og dregist með honum um 60 metra. Halldór er skrámaður á vinstri vanga og marinn á brjóstkassa, baki og öxlum. Að öðru leyti er Halldór ómeiddur og fékk að fara heim að lokinni læknisskoðun á Sjúkrahúsinu í Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Faðir Halldórs, Gísli Hjálmarsson, var á tali við annan mann fyrir utan heimili þeirra, við Hafnargötu í Höfnum, þegar bifreið ók þar hægt framhjá. Gísli sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hafi heyrt dynk og haldið að eitthvað hafði dottið úr bílnum. Það næsta sem Gísli sá var húfa drengsins á götunni og þá hafi hann gert sér grein fyrir því hvað hafði gerst.

„Ég hljóp á eftir bílnum og hrópaði af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer var ökumaðurinn að fara í næsta hús og stoppaði því um 60 metrum neðar í götunni. Hann taldi sig hafa ekið yfir snjóhindrun. Þegar að var komið sáum við í drenginn við afturhjól bílsins, farþegamegin. Hann var á grúfu og var með höfuðið við hjól bílsins.

Ég fékk bílstjórann til að bakka aðeins og síðan lyftum við bílnum ofan af Halldóri. Það var kallað á sjúkrabíl sem kom mjög fljótt og flutti drenginn á sjúkrahús,“ sagði Gísli Hjálmarsson í samtali við blaðið.

Halldór var óvenju hress þegar blaðamenn Víkurfrétta heimsóttu hann á heimili hans í Höfnum á þriðjudaginn. Að læknisráði var hann innivið á þann dag. Halldór segist lítið muna eftir slysinu. Hann segist hafa verið að leika sér þegar óhappið átti sér stað. „Ég man hvernig ég rúllaði undir bílnum,“ sagði hann í samtali við blaðið. „Þá man ég líka þegar löggan kom.“

Þó svo bíllinn sem Halldór lenti undir hafi ekið mjög hægt, þá er það alltof algengt að bílum sé ekið á miklum hraða í byggðarlaginu. Það er vandamál sem hreppsyfirvöld og lögreglan hafa glímt við um nokkurt skeið.