Vilja byggja 390 metra langan NATO-hafnargarð í Helguvík
Þörf fyrir eldsneytisbirgðir og aðstöðu fyrir flota Atlantshafsbandalagsins vegna leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi
Utanríkisráðuneytið hefur óskað eftir formlegu samstarfi við Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn með það að markmiði að hefja undirbúning og formlegt samstarf um áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík. Áætlað er að reisa allt að 390 metra langan viðlegukant í Helguvík fyrir herskip á vegum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Þá er gert ráð fyrir 25.000 rúmmetra eldsneytisbirgðageymslu. Um er að ræða um fimm milljarða króna framkvæmd í samstarfi við Atlantshafsbandalagið og varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar. Verkefnið byggir m.a. á þörf fyrir eldsneytisbirgðir á Norður-Atlantshafi.
Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur vel í erindið og hefur falið Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, og Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að vinna áfram í málinu.
„Við eigum teikningar af hafnarsvæðinu í Helguvík sem sýnir hvernig við sjáum það fyrir okkur eftir einhver ár og hvernig hugmyndir hafa verið að uppbyggingu. Á suðurbakkanum í Helguvík er svæðið upp á tæpa 450 metra þar sem mögulegt er að byggja upp viðlegukant og það hefur verið inni á teikningum hjá okkur í nokkur ár. Til þess að skapa aðstæður, ef til þarf á óvissutímum, þá sé vilji hjá Atlantshafsbandalaginu til þess að að fjármagna uppbyggingu á kanti svo hann sé orðinn klár og hægt sé að nota hann til að þjónusta skip bandalagsins og vinaþjóða, þá sé möguleiki á að taka þau þarna inn,“ segir Halldór Karl í samtali við Víkurfréttir.
Er svona viðlegukantur fyrir NATO er ekkert að trufla aðra uppbyggingu í Helguvík?
„Nei, og hugmyndirnar sem verið hafa uppi og ég held að við komum til að vinna með er að nýtingin á þessum viðlegukanti verði fyrst og fremst borgaraleg, til þjónustu á skipum sem þurfa á þjónustu að halda í Helguvík, algjörlega óháð því hvort það sé herskip eða ekki. Ef að til kemur hættuástand þá horfa menn til þess að aðstaða sé til staðar. Þá er horft til þess að með hafnargarðinum í Helguvík verði hægt að þjónusta skip í tengslum við leit og björgun á norðurslóðum.“
Þessi kantur er þá ekki að trufla áformin með Landhelgisgæsluna í Njarðvík?
„Nei, þetta eru alveg óskyld mál.“