Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Fréttir

Vínveitingar á æskulýðsviðburðum fari fram með ábyrgum hætti
Fimmtudagur 27. febrúar 2025 kl. 06:30

Vínveitingar á æskulýðsviðburðum fari fram með ábyrgum hætti

„Umbót telur að markmiðið ætti ekki að vera að banna vínveitingar á íþrótta- og æskulýðsviðburðum, heldur að tryggja að þær fari fram með ábyrgum hætti. Mikilvægt er að fylgja skýrum reglum og gæta þess að neysla og sala áfengis sé í samræmi við gildandi reglugerðir. Til dæmis að tryggja að enginn undir átján ára sé á þeim svæðum þar sem áfengi er neytt og að allir fari að settum reglum um sölu og neyslu,“ sagði Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, í bókun á bæjarstjórnarfundi 18. febrúar vegna fundargerðar lýðheilsuráðs en þar var til umfjöllunar áfengissala á íþróttaviðburðum.

„Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa heilbrigt og öruggt umhverfi fyrir ungmenni okkar. Þau taka eftir því sem við gerum og læra af fordæmi okkar. Ef við sýnum ábyrgð og skynsemi í þessum málum, hjálpum við þeim að þróa heilbrigð viðhorf til áfengis og samfélagslegra gilda. Við ættum að geta verið sammála um að halda þessu í góðu jafnvægi. Við viljum ekki missa stjórnina né að hlutirnir fari úr böndunum.

Ungt fólk er framtíðin og það er okkar hlutverk að tryggja að þau alist upp í umhverfi þar sem heilbrigðir lífshættir og góðar fyrirmyndir eru í fyrirrúmi. Ég treysti íþróttafélögunum  til að halda utan um þetta á þann hátt að unga fólkið okkar þurfi ekki að bera skaða af, heldur njóti jákvæðs og uppbyggilegs umhverfis sem styrki þau til framtíðar,“ segir Margrét í bókuninni. Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) tók til máls og tók undir bókun Margrétar.