Yfir 60 ábendingar um lyktarmengun í dag
- Íbúar loka gluggum vegna mengunar frá United Silicon
Yfir 60 ábendingar um lyktarmengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík hafa borist til Umhverfisstofnunar í dag. Íbúar í Reykjanesbæ fundu margir fyrir brunalykt frá verksmiðjunni í gærkvöld og í dag. Fulltrúi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að loftrör hafi sprungið um klukkan 16:00 í gær og því hafi verið slökkt á ofni verksmiðjunnar meðan á viðgerð stóð, til klukkan 22:00 í gærkvöld. Brunalykt frá verksmiðjunni hefur verið tengd við atvik þegar slökkva hefur þurft á ofninum.
Íbúar í Reykjanesbæ hafa margir hverjir tjáð sig um mengunina á samfélagsmiðlum í dag og hafa nefnt að hafa þurft að loka öllum gluggum á heimilum sínum vegna sterkrar brunalyktar.