Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Sennilega leiðinlegustu æfingar sem ég hef farið á!“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 3. júlí 2020 kl. 10:23

„Sennilega leiðinlegustu æfingar sem ég hef farið á!“

Adam Árni Róbertsson hefur farið vel af stað með Keflavík eftir meiðsli, Keflvíkingar mæta Leikni frá Reykjavík í kvöld á Nettóvellinum.

Víkurfréttir ræddu við Adam Árna Róbertsson eftir leikinn gegn Víkingi Ólafsvík í Lengjudeildinni sem Keflvíkingar unnu 4:0 og Adam skoraði tvö. Hann hefur komið sterkur inn í Keflavíkurliðið eftir meiðsli, skorað í báðum deildarleikjunum og er markahæstur í deildinni.

– Hvað segir þú eftir þennan útisigur á Víkingum?

Sterkur sigur á móti góðu liði, það eru ekkert allir sem fara í Ólafsvík og sækja stig. Það er bara svoleiðis, hvað þá að skora fjögur mörk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Það er allt að smella hjá liðinu, bæði i vörn og sókn.

Þetta lúkkar rosalega vel og mér finnst vera góð breidd í hópnum, það geta allir komið inn og bara staðið sig vel. Við sjáum það að Maggi [Magnús Þór Magnússon] og Frans [Elvarsson] voru ekki einu sinni í hópnum. Það kemur bara menn í manns stað.

Ég er búinn að vera í þessu liði í fjögur ár og mér finnst einhver „kemistría“ vera að smella hjá okkur núna, mér líst rosalega vel á þennan hóp. Þetta er ungur hópur og svo nokkrir eldri sem koma með reynslu inn í liðið. Það eru allir einhvern veginn á sömu blaðsíðu.

– Þið byrjið mótið af krafti og virðist í fantaformi, hvernig höguðuð þið undirbúningi á þessum veirutímum?

Ég náttúrlega bara nýkominn inn eftir mín meiðsli svo ég var ekki mikið inn í því. Við fengum nýja menn í liðið, ferska fætur, og svo auðvitað nýjan þjálfara, Sigga Ragga. Hann og Eysteinn eru flottir saman, búnir að hrista aðeins upp í hlutunum. Nú á þessum Covid-tímum þá gerðum við bara allt sem við gátum gert, vorum að hlaupa og svo þegar við máttum byrja að æfa þá máttum við ekkert snertast og æfðum í hollum, hlaupandi með bolta bara. Sennilega leiðinlegustu æfingar sem ég hef farið á. Svo spiluðum við nokkra leiki í kjölfarið og ég minn fyrsta í bikarnum.

– Hvernig líst þér á framhaldið?

Mjög vel ef við höldum svona áfram en það þýðir ekkert að vera uppi í skýjunum eftir tvo leiki. Þetta lítur rosavel út og við erum líka fljótir að jafna okkur eftir leiki, við erum ungir. Maður sá það á Víkingunum, þeir spiluðu auðvitað 120 mínútur, að við komum mikið betur stemmdir í leikinn. Leikurinn hefur setið mikið meira í þeim, svo erum við líka með meiri breidd.

– En hvernig er heilsan á þér?

Heilsan er góð, hún er fín. Ég á reyndar ennþá eftir að ná heilli æfingaviku en vonandi kemur það bara. Ætli ég fái ekki að komast upp með það á meðan ég skora mörk. Ég er allur að smella saman en ég á ennþá eitthvað í land, á ennþá inni. Sem er gott.

– Nú eru farin að greinast smit hjá liðum í efstu deildum boltans, hefurðu áhyggjur af Íslandsmótinu?

Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur en djöfull yrði það leiðinlegt ef það kæmi annar skellur og mótinu frestað eða blásið af. Það þýðir ekkert að grenja yfir því, það er miklu meira í húfi en þetta Íslandsmót held ég. Ef við pælum í því að ef fólk verður alvarlega veikt þá yrði þetta ekki það versta í stöðunni, að þurfa að sleppa einhverjum leikjum eða fresta mótinu eitthvað. Það væri auðvitað leiðinlegt, sérstaklega á meðan liðið er í svona góðu formi. Maður er búinn að vinna að þessu lengi en það yrði bara að hafa það.


Keflavík tekur á mót sterku liði Leiknis Reykjavík í kvöld á Nettóvellinum klukkan 19:15. Keflavík hefur unnið báða sína leiki í deildinni og er með markatöluna 9:1 á meðan Leiknir hefur unnið einn og gert eitt jafntefli. Hörkuleikur framundan.