Braut dræverinn eftir ráðleggingar frá Erni Ævari
Kennarar úr Grunnskólanum í Sandgerði eiga góðar stundir saman á golfvellinum nokkrum sinnum á ári og nýverið var efnt til keppni. Þar fékk dræver sem kylfingurinn kunni Örn Ævar Hjartarson á að finna fyrir því hjá vinnufélaga Arnar – en skaftið á drævernum kubbaðist í sundur eftir upphafshögg sem Hlynur Þór Valsson átti.
Örn Ævar segir að líklega hafi ráðleggingar frá honum sjálfum verið lykillinn að því að skaftið brotnaði en hér fyrir neðan er lýsing hans á atvikinu.
„Ég var að leika golf með vinnufélögum mínum eins og við gerum alltaf á vorin og haustin. Eins og gengur þá eru menn misgóðir í þessari íþrótt og vinnufélagi minn og góður vinur, Hlynur Þór Valsson fékk lánaðar kylfurnar hjá mér á þessum hring. Við spiluðum greensome þannig að allir þurftu að dræva. Eftir fyrstu holurnar fékk hann þá ráðleggingu frá mér að tía boltann svolítið hærra. Það gekk ekki betur en það að höggið kom allt á skaftið á kyflunni með þeim afleiðingum að hann skaftið kubbaðist í tvennt. Hann var í miklu meira sjokki en ég eftir þetta en það var pínu svekkjandi að þetta var dræver sem ég keypti fyrir þremur vikum og hafði hentað mér ágætlega. Það hlýtur að vera hægt að fá eitthvað þokkalegt skaft í hausinn þannig að maður geti notað kylfuna aftur. Tiltækið „You break it. You buy it“ var notað nokkuð mikið það sem eftir var að deginum,“ segir Örn Ævar Hjartarson.