Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fjörug fótboltahelgi – Þróttarar komnir á blað í Lengjudeildinni
Andy Pew fagnar jöfnunarmarki sínu, glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 21. maí 2022 kl. 18:26

Fjörug fótboltahelgi – Þróttarar komnir á blað í Lengjudeildinni

Það hefur verið í nógu að snúast hjá knattspyrnumönnum um helgina en í gær og dag var leikið í Lengju-, 2. og 3. deild karla. Í gær fóru Grindvíkingar norður um heiðar og mættu Þór á Akureyri í Lengjudeildinni, Grindvíkingar leiddu leikinn framan af en Þórsarar gáfust ekki upp og skoruðu jöfnunarmark í uppbótartíma.
Þróttarar tóku hins vegar á móti Vestra frá Ísafirði í dag og mega Ísfirðingar prísa sig sæla með að hafa náð stigi út úr leiknum sem lauk með 1:1 jafntefli. Fyrsta stig Þróttar í næstefstu deild.

Þróttur - Vestri 1:1

Það blés hraustlega á Vogaídýfuvellinum í dag en engu að síður fínustu aðstæður til að spila knattstpyrnu. Þróttur lék undan vindi í fyrri hálfleik og fengu fyrsta færið eftir um tíu mínútna leik. Þá stakk Pablo Gállego Lardiés sér inn fyrir varnarmann, kom boltanum fram hjá markverði Vestra. Boltinn stefndi beina leið inn en á óskiljanlegan hátt „bjargaði“ Oliver Kelaart á línu og ekkert varð úr markinu.

Boltinn á leið í markið ...
... en Oliver Kelaart bjargar á síðustu stundu.

Leikurinn var spilaður svolítið fast og leikmönnum heitt í hamsi en þeir virtust hins vegar detta flestir frekar auðveldlega. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleikur fór af stað og fátt markvert gerðist fyrr en gestirnir fengu dæmda vítaspyrnu sem Vladimir Tufegdzic skoraði úr og kom Vestra yfir (62'). Frekar ósanngjarnt en hlutlaus áhorfandi sem var í kjöraðstöðu til að sjá þegar vítaspyrnan var dæmd sagði: „Það er kannski við hæfi að úrslitin á Vogaídýfuvellinum ráðist á svona dýfu.“

Þróttarar gáfust ekki upp heldur tvíefldust og sóttu gegn stífum vindi og varð vel ágengt. Eftir hornspyrnu mætti fyrirliðinn Andy Pew fyrigjöfinni, stökk manna hæst og stýrði boltanum upp í samskeitin fjær – algerlega óverjandi fyrir markvörð Vestra. Stúkan tók æðiskast og fagnaði sínum mönnum.

Þeir verja hann ekki þarna.

Þróttarar sóttu áfram og vantaði aðeins herslumuninn að ná að brjóta vörn Vestra. Fleiri urðu mörkin ekki og jafntefli því niðurstaðan.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.


Þór Akureyri - Grindavík 1:1

Í gær léku Grindavík og Þór á Akureyri. Grindvíkingar komust yfir með marki Dags Inga Hammer (27') og þrátt fyrir að Þórsarar væru við stýrið í seinni hálflleik virtist stefna í að Grindvíkingar héldu fengnum hlut. Þórsarar neituðu hins vegar að leggja árar í bát og uppskáru mark í uppbótatíma.

Dagur Ingi virðist vera í feiknarformi þessa dagana.

Þá náðu Þórsarar að senda boltann fram á sóknarmann sinn, tveir varnarmenn Grindavíkur skullu saman og því eftirleikur Þórsarans frekar einfaldur. Komst fram hjá Aroni Degi og skoraði á 94. mínútu. Allt varð brjálað en í aðdraganda marksins vildu Grindvíkingar meina að brotið hefði verið á leikmanni sínum en ekkert var dæmt og Þór brunaði upp og jafnaði. Það var talsverður hiti í mönnum og fengu tveir Grindvíkingar að líta rauða spjaldið áður en flautað var til leiksloka, lokatölur 1:1.


Víkingur Ólafsvík - Njarðvík 1:3

Njarðvík er með fullt hús stiga og efst í 2. deild karla eftir að hafa unnið Víking á Ólafvík í dag.

Oumar Diouck skoraði tvívegis (11' og 62') og hefur skorað fimm mörk í deildinni. Úlfur Ágúst Björnsson skoraði annað mark Njarðvíkinga (57').


Reynir - Ægir 0:2

Þriðja tap Reynis varð í gær þegar Reynismenn tóku á móti Ægi. Reynir er án stiga og situr á botni 2. deildar ásamt Hetti/Huginn.


Augnablik - Víðir 1:2

Víðismenn töpuðu sínum fyrsta leik í 3. deild karla í gær þegar Augnablik hafði betur með tveimur mörkum gegn einu. Það var Atli Freyr Ottesen Pálsson sem kom Víðismönnum yfir á 14. mínútu en Augnablik jafnaði fjórum mínútum síðar og gerðu út um leikinn á 84. mínútu.

Þróttur - Vestri (1:1) | Lengjudeild karla 21. maí 2022