Fór sem krakki með pabba á júdóæfingar
– segir Heiðrún Fjóla Pálsdóttir sem var valin glímukona ársins 2021
Heiðrún hlaut titilinn glímukona ársins af Glímusambandi Íslands í fyrsta sinn nú um áramótin en hún hefur stundað glímu í um sex ár. Heiðrún átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum á árinu og tók þátt í öllum mótum Glímusambandsins á árinu og var iðulega í verðlaunasæti. Heiðrún er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.
Hún varð Íslandsmeistari í tveimur þyngarflokkum á Íslandsmótinu og önnur í opnum flokki. Hún vann opinn flokk kvenna á Haustmóti Glímusambandsins og varð önnur í +74 kg flokki. Þá varð Heiðrún önnur í keppninni um Freyjumenið sem er jafngildi Grettisbeltisins í karlaflokki.
Heiðrún Fjóla, sem er yfirþjálfari glímudeildar UMFN og situr í varastjórn Glímusambands Íslands, segir að árið 2021 hafi reynst sér mjög vel. „Árið var mjög gott, ég tók þátt í öllum glímumótum ársins og átti mjög gott ár.“
Nú ert þú búin að stunda glímu í sex, sjö ár en hvernig stóð á því að þú byrjaðir í þessum glímuíþróttum?
„Ég byrjaði að æfa júdó í Grindavík þegar ég var krakki,“ segir Heiðrún sem er frá Grindavík en býr nú í Reykjanesbæ. „Pabbi var eitthvað að æfa júdó þar og ég fór bara með honum. Ég æfði þar í nokkur ár en hætti svo og var ekkert að pæla í þessu. Síðan þegar ég flutti úr Grindavík og til Njarðvíkur fór ég að æfa hjá Gumma [Guðmundi Stefáni Gunnarssyni], það var 2015. Ég ætlaði bara að fara að æfa júdó en svo voru allar þessar fangbragðaíþróttir í boði; júdó, Brazilian Jiu-Jitsu og glíma, og ég æfði bara allt sem ég gat, eins mikið og ég gat. Þannig leiddist ég út í glímuna.“
Hver er stefnan á þessu ári?
„Markmiðið er að vinna allt sem er í boði, aðalmarkmiðið er að vinna Íslandsglímuna í vor. Þá er keppt um Freyjumenið en ég lenti í öðru sæti í keppni um það í fyrra. Ég keppi meira í glímu og Jiu-Jitsu í dag en júdó – ég keppi alveg í júdó en legg meiri áherslu á glímuna.“
Þessi mót sem þú ert að taka þátt í, eru þau öll innanlands eða ferðu út fyrir landsteinana líka?
„Núna eru þau flest hér en fyrir Covid var ég mjög mikið að taka þátt í mótum erlendis. Ég hef lítið farið undanfarið en keppti á júdómóti í Svíþjóð í nóvember þar sem ég lenti í öðru sæti. Við vorum að fara á vegum Glímusambandsins á mót á Englandi og Skotlandi og svo á Evrópumót líka en það hefur ekkert verið núna. Það liggur allt niðri eins og staðan er.“
Kraftmikið starf hjá glímudeildinni
Þeim fjölgar stöðugt sem leggja stund á fangbragðaíþróttir hjá Njarðvík segir Heiðrún.
„Krakkar eru mjög áhugasamir um glímuíþróttir og það eru mjög margir nýir að koma inn. Við erum í raun ekki með neinar séræfingar í júdó, Jiu-Jitsu eða glímu hjá deildinni, við kennum þeim þetta allt. Þetta eru bara fangbragðaíþróttir og krakkarnir eru eru duglegir að keppa í þeim öllum. Iðkendur eru frá sex ára aldri og uppúr,“ segir Heiðrún. „Glímuíþróttir eru fyrir alla.“