Foreldrar Arnórs voru í flugi þegar leikurinn hófst
Náðu seinni hálfleik heima og upplifðu dásamlega stund
Foreldrar markaskorarans Arnórs Ingva, þau Trausti Már Hafsteinsson og Una Kristín Stefánsdóttir, voru stödd í flugvél þegar leikur Íslands og Austurríkis á Evrópumótinu hófst í gær. Þau voru á heimleið til Íslands eftir að hafa horft á fyrstu tvo leiki Íslands gegn Portúgal og Ungverjum út í Frakklandi. Þau náðu rétt í tæka tíð heim í stofu á Starmóa þar sem þau sáu seinni hálfleik ásamt fjölskyldumeðlimum og nágrönnum, en fluginu þeirra seinkaði um 40 mínútur.
„Ég geng ekkert í dag, ég bara svíf,“ sagði Trausti faðir Arnórs þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann var mættur aftur til vinnu í dag með pensil í hönd á meðan Una móðir Arnórs fór með yngsta soninn, Viktor Árna, á Shellmótið í Eyjum.
„Það var allt í móki þarna fyrstu tíu mínúturnar eftir leikinn,“ segir Trausti glaður í bragði. Hann segist vart muna eftir stemningunni í stofunni þegar sonurinn skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndum leiksins. „Þetta var bara dásamleg stund og maður bara öskraði og æpti. Við erum búin að fá óhemju af kveðjum og Facebook hreinlega logar. Viðbrögðin hafa verið rosaleg,“ bætir hann við.
Þau Una og Trausti ætla sér að fara á leikinn á mánudaginn gegn Englandi í 16-liða úrslitum og eru þessa stundina að reyna að ganga frá þeim málum.
Spáði því að hann kæmi inn á og skoraði sigurmarkið
„Maður gerði kannski ekki alveg ráð fyrir því að hann væri að fara að spila. Hann var bara að vinna sér inn punkta með því að taka þátt í þessu móti. Ég hefði samt viljað sjá hann koma inn á móti Ungverjum,“ segir Trausti sem var búinn að spá því að Arnór fengi tækifæri gegn Austurríkismönnum. „Ég var búinn að segja við hann að hann myndi koma inn á eftir 70. mínútu í þessum leik og myndi gera sigurmarkið. Það rættist heldur betur.“
Arnór er að fara að flytja til Vínarborgar í Austurríki eftir nokkrar vikur þar sem hann mun spila með liði Rapid Vín. Nokkrir stuðningsmenn liðsins voru á leiknum í gær og vildu þeir endilega fá mynd af sér með markaskoraranum. Þannig að segja mætti að hann hafi þegar stimplað sig inn í austurríska boltann áður en hann mætir til leiks.
Foreldarnir fengu að hitta Arnór í Marseille og borðuðu með honum eftir fyrsta leik liðsins. Þar fengu þau innsýn inn í lífið hjá liðinu. Viktor yngsti bróðir Arnórs fékk þá mynd af sér með Gylfa Sigurðssyni og hafði Gylfi orð á því að sá stutti væri alveg eins og Arnór, enda eru þeir nauðalíkir bræðurnir.
Eftir aðeins nokkrar sekúndur á vellinum fékk Arnór frekar harkalegt höfuðhögg eftir skallaeinvígi.„Manni leist ekkert á þetta þegar hann fékk höfuðhöggið. Arnór sagði við mig í gær eftir leik, að hann hefði bara horft í grasið og hugsað að þetta væri ekki að gerast. Hann var þó fljótur að jafna sig og það fyrsta sem hann sagði við lækninn var, „hvert fór boltinn,“ segir Trausti og hlær.