Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Íþróttir

Fyrsta Gam-LAN kvöldið sló í gegn
Fimmtudagur 27. febrúar 2025 kl. 10:02

Fyrsta Gam-LAN kvöldið sló í gegn

Rafík eflir rafíþróttamenningu í Reykjanesbæ

Í síðustu viku fór fram fyrsti Gam-LAN viðburðurinn, ætlaður spilurum 30 ára og eldri, og tókst hann frábærlega. Spilarar komu saman í afslöppuðu umhverfi til að rifja upp gömlu LAN-dagana, spila saman og njóta góðs félagsskapar. Stemmningin var einstök og viðbrögðin afar jákvæð.

Gam-LAN er hluti af stærra verkefni á vegum Rafík, rafíþróttadeildar Keflavíkur, sem hefur það að markmiði að efla rafíþróttamenningu í Reykjanesbæ. 

Með viðburðum eins og þessum er verið að skapa vettvang fyrir eldri spilara á sama tíma og deildin vex og þróast.

„Við viljum að Rafík sé fyrir alla sem hafa áhuga á rafíþróttum, ekki bara börn og ungmenni heldur líka fullorðna sem hafa alist upp við tölvuleiki og LAN-menningu. Gam-LAN er frábært tækifæri fyrir eldri spilara til að hittast, spila saman og rifja upp gamla tíma, en um leið sýnir það að rafíþróttir eru fyrir alla aldurshópa,“ segir fulltrúi Rafík.

Rafík hefur á síðustu árum byggt upp skipulagt og metnaðarfullt starf í rafíþróttum, þar sem lögð er áhersla á að kenna ungu fólki samvinnu, aga og jákvæða spilamenningu. Reglulegar æfingar eru haldnar fyrir börn og ungmenni, þar sem þau læra að æfa rafíþróttir með heilbrigðan lífsstíl í huga, í jafnvægi við skóla og daglegt líf.

Fyrsta Gam-LAN kvöldið sýndi greinilega að það er þörf fyrir vettvang sem þennan, og framtíðin lítur vel út fyrir frekari uppbyggingu rafíþróttamenningar í sveitarfélaginu.

Foreldrar sem vilja kynna börnum sínum rafíþróttaþjálfun geta skráð þau í Rafík og gefið þeim tækifæri til að þróa hæfileika sína í skipulögðu og uppbyggilegu umhverfi.

Einnig er hægt að fylgjast með Rafík á samfélagsmiðlum fyrir fréttir, viðburði og einnig á heimsíðu Keflavíkur