Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar ætla að blanda sér í toppbaráttuna
Kristófer Páll skrúfar boltann yfir varnarvegg Fylkismanna. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. maí 2022 kl. 18:23

Grindvíkingar ætla að blanda sér í toppbaráttuna

Grindavík vann mikilvægan sigur í toppbaráttu Lengjudeildar karla í knattspyrnu með góðum 1:0 sigri á Fylki sem var í öðru sæti deildarinnar. Með sigrinum fór Grindavík upp fyrir Fylki en Grótta skaut sér í annað sætið með stórsigri á KV á sama tíma.

Leikurinn var ekki áferðarfallegur en það blés frekar hressilega í Grindavík í dag og vindurinn setti mark sitt á leikinn. Í fyrri hálfleik lekur Grindvíkingar gegn sterkum vindinum og lögðu áherslu á varnarleikinn. Þrátt fyrir það voru það heimamenn sem sköpuðu sér einhver færi en ekki gestirnir og rétt áður en dómari blés til hálfleiks var Símon Logi Thasaphong hársbreidd frá því að ná til knattarins fyrir framan autt mark Fylkis eftir að sending frá vinstri lak í gegnum pakkann fyrir framan markið.

Seinni hálfleikur var á pari við þann fyrri, mikið um háloftasendingar sem vindurinn greip og kraftabolti á vellinum. Það var loks á 57. mínútu að eitthvað markvert gerðist, Grindvíkingar fengu þá aukaspyrnu frá vinstri, rétt fyrir utan vítateig gestanna. Kristófer Páll Viðarsson tók spyrnuna og nýtti sér vindinn vel, skrúfaði boltann yfir varnarvegginn og upp í samskeytin nær – mark af dýrari gerðinni og algerlega óverjandi fyrir markvörð Fylkis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Algerlega óverjandi aukaspyrna Kristófers söng í samskeytunum og Grindavík fór með sigur af hólmi.

Eftir markið harðnaði baráttan enda reyndu Fylkismenn að sækja en dugnaður Grindvíkinga skilaði góðri varnarvinnu. Rétt í blálokin fékk Fylkir ágætis færi en Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindvíkinga, var vandanum vaxinn og varði hættulegan skalla Fylkismanna. Það reyndist síðast færið í leiknum og Grindavík tók öll stigin.

Aron Dagur Birnuson einbeittur á svip þegar hann ver á lokasekúndu leiksins og sá til þess að Grindvíkingar héldu öllum stigunum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli og tók viðtöl við Sigurjón Rúnarsson, fyrirliða Grindvíkinga, og markaskorarann Kristófer Pál Viðarsson sem skoraði glæsimarkið sem skildi liðin að. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.