Heimavöllur Eyjamanna á gosári var í Njarðvík
Njarðvíkingar gáfu Eyjamönnum mynd til minningar um heimavöllinn í Njarðvík
Fyrir Þjóðhátíðarleik ÍBV og Njarðvíkur þann 3. ágúst sl. afhenti Ólafur Thordersen, fyrir hönd UMFN, forsvarsmönnum ÍBV mynd frá árinu 1973 en þá fengu Eyjamenn knattspyrnuvöll Njarðvíkinga fyrir heimavöll í kjölfar eldgosins í Heimaey.
Njarðvíkurvöllur varð hálfgerður „Mekka“ fyrir Eyjafólk þetta sumarið, þar sem fólk fjölmennti á leiki ÍBV, kom langar vegalengdir og varð liðið einskonar sameiningartákn Eyjamanna.
Þetta sumarið spiluðu Eyjamenn 14 leiki, unnu átta, gerðu eitt jafntefli og töpuðu fimm. Eini tapleikur á Njarðvíkurvellinum kom gegn „nágrönnunum“ úr Keflavík.
Ólafur afhenti myndina í hálfleik á þjóðhátíðarleiknum og var vel tekið í þetta skemmtilega framtak.
Hér að neðan má sjá úrklippu úr Morgunblaðinu í leik ÍBV og ÍBK á Njarðvíkurvellinum í júní 1973 en þetta var eini leikurinn sem Eyjamenn töpuðu í deildinni þetta ár. Keflavík - gullaldarliðið - varð Íslandsmeistari í lok tímabils.