Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laganemi í mótorkrossi og boxi
Laugardagur 24. ágúst 2013 kl. 10:02

Laganemi í mótorkrossi og boxi

Skortur á kvenfólki í þessum óhefðbundnu íþróttum segir Helga Valdís, 22 ára Njarðvíkingur

Helga Valdís Björnsdóttir er 22 ára Njarðvíkurmær sem stundar ansi óhefðbundnar íþróttir samhliða laganámi sínu við Háskólann í Reykjavík. Helga hefur undanfarin ár stundað mótorkross af kappi og fyrir tveimur árum langaði hana að byrja í nýrri íþrótt sem hægt væri að stunda yfir vetrartímann. Hnefaleikar urðu fyrir valinu og hefur hún æft box með Hnefaleikafélagi Reykjaness en einnig með Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar þegar það hentar betur að mæta á æfingu eftir skóla í höfuðborginni.

Keypti sér krossara fyrir fermingarpeningana
Helga Valdís byrjaði í mótorkrossíþróttinni þegar hún var 14 ára gömul en ári eftir að hún fermdist langaði hana að nota fermingarpeningana sína til þess að kaupa sér vespu. „Ég var orðin þreytt á að taka strætó úr Innri-Njarðvík og vildi ekki þurfa að stóla á foreldra mína til þess að skutla mér. Eldra bróður mínum leist hins vegar ekkert á að ég færi út í umferðina á vespu og stakk upp á því að ég keypti mér heldur mótorkross hjól. Það fannst honum minna hættulegt. Mig hafði alltaf langað að prófa mótorkross þar sem bróðir minn hafði stundað þetta þannig að ég sló til,“ segir Helga. Úr varð að Helga notaði fermingarpeninginn sinn til þess að kaupa sér glænýjan krossara og eftir það var ekki aftur snúið. Hún er meðlimur í Akstursíþróttafélagi Suðurnesja og notar hvert tækifæri til þess að hjóla. Helga hefur keppt í mótorkross í mörg ár í kvennaflokki og hafnaði í 3. sæti í annarri keppninni sem hún tók þátt í. Eftir það hefur hún af og til tekið 2. og 3. sæti í mótum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekkert hrædd við að byrja en mamman smeyk
Ekki er beint möguleiki að æfa mótorkross eins og aðrar íþróttir þar sem mætt er á æfingar nokkrum sinnum í viku. Í boði eru þó námskeið á sumrin sem Helga tekur yfirleitt þátt í. Inn á milli keyrir hún sjálf á þær mótorkrossbrautir sem í boði eru á suðvesturhorni landsins, með kerru í eftirdragi. Ein uppáhalds braut Helgu og jafnframt hennar „heimabraut“ er Sólbrekka, sem staðsett er hjá Sólbrekkuskógi. Það er eina mótorkrossbrautin hér á Suðurnesjunum en annars eru nokkrar á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurð hvort engin hræðsla hafi verið í 14 ára stelpunni sem ákvað að skella sér í mótorkross segist Helga ekkert hafa verið smeyk. „Mamma var svolítið hrædd um mig en mér fannst þetta ekkert mál. Eftir að hafa fylgst með stóra bróður í nokkur ár var ég orðin svo svakalega spennt að prófa að hjóla. Þetta er alveg ótrúlega gaman og maður þarf að hafa mikið þol, þetta er svakaleg áreynsla.“

Skortur á kvenfólki í óhefðbundnum íþróttum
Haustið 2011 langaði Helgu að byrja að æfa íþrótt sem tiltölulega auðvelt væri að komast inn í, þrátt fyrir að vera komin á tvítugsaldurinn. „Mig langaði í raun bara að halda mér í formi yfir veturna en ég er þannig týpa að ég verð helst að vera í skipulagðri íþrótt. Svo er keppnisskapið mikið og þess vegna vil ég helst keppa líka,“ segir Helga. Síðasta haust keppti hún sinn fyrsta bardaga í boxi í Svíþjóð og í október er hún á leið til Danmerkur á mót. Skortur á kvenfólki í íþróttinni hefur valdið því að eins og er er engin kona í sama þyngdarflokki og Helga Valdís og því hefur það reynst erfitt að finna keppinaut hér á landi. „Það eru allt of fáar stelpur í boxinu en það eru þó augljós kynslóðarskipti þar sem mikið af unglingsstelpum eru að byrja að æfa. Sama með mótorkrossið, það eru aðeins um 15-20 stelpur sem keppa í íþróttinni hér á suðvesturhorninu.“

Námið gengur fyrir
Helga Valdís er á öðru ári í Háskólanum í Reykjavík þar sem hún leggur stund á laganám. Námið finnst henni mjög skemmtilegt og tekur hún fram að það gangi alltaf fyrir. Íþróttirnar séu fyrst og fremst áhugamál. „Þegar ég kynnist nýju fólki eru margir hissa á því að ég sé í þessum íþróttum en fyrir mér er þetta ósköp eðlilegt,“ segir Helga Valdís að lokum.