Man ekki eftir mér öðruvísi en í fimleikum
Margrét Júlía Jóhannsdóttir er fjórtán ára fimleikastelpa úr Keflavík sem hefur sett sér háleit markmið og ætlar að ná langt í fimleikum. Margrét var valin í landslið Íslands á dögunum og hefur þegar tekið þátt í tveimur landsliðsverkefnum.
„Ég byrjaði tveggja ára í krakkafimleikum, það eru orðin tólf ár síðan,“ segir Margrét Júlía sem lagði líka stund á fótbolta en þegar hún var komin í þriðja bekk ákvað hún að einbeita sér að fimleikum.
„Ég hef líka gaman af fótbolta, fer oft á völlinn til að sjá Keflavík spila og fylgist með. Fókusinn er hins vegar á fimleikana sem mér finnast rosalega skemmtilegir og ég æfi sex daga vikunnar, þrjá klukkutíma í senn. Það er líka þjálfun inni í þeim tíma en ég þjálfa aðallega um helgar. Það hafa alveg komið tímar þar sem smá efasemdir hafa komið upp í sambandi við fimleikana, þetta er svolítið mikið álag, en þetta er orðið að rútínu núna – ég man hreinlega ekki eftir öðru en að hafa verið í fimleikum.“
Mikið safn verðlaunagripa
Eftir að hafa stundað fimleika þetta lengi er verðlaunasafn Margrétar orðið ansi veglegt en hvað ætli standi upp úr á hennar keppnisferli?
„Að verða Íslandsmeistari í ár í fyrsta þrepi stendur upp úr, ég hef líka orðið sigurvegari í þriðja þrepi en það var bara í mínum aldursflokki, ekki yfir allt þrepið.“
Hefurðu tekið þátt í alþjóðlegum mótum, svona fyrir utan landsliðsverkefni?
„Nei, því miður ekki. Það er svolítið leiðinlegt að vera að koma upp á þessum tíma, við áttum að fara á æfingamót til Ungverjalands en því var aflýst út af Covid.
Ég hlakka mjög að geta tekið þátt í svona stórum alþjóðlegum mótum en það verður að hafa sinn gang.“
Á góða afreksfjölskyldu
Margrét Júlía var á dögunum valin í unglingalandslið Íslands í áhaldafimleikum. Liðið keppti á rafrænu Norðurlandamóti í Björkunum laugardaginn 30. október þar sem stúlkurnar þreyttu frumraun sína í keppni með landsliði. Það reyndist vera góður undirbúningur fyrir alþjóðlega mótið Gymnova Cup í Belgíu sem fór fram helgina 13.–14. nóvember. Þar kepptu stúlkur frá ellefu Evrópulöndum auk Kanada. Íslenska liðið keppti í junior-flokki en keppendur voru 30 talsins. Margrét Júlía átti mjög góðan keppnisdag og frammistaða hennar skilaði henni sjötta sæti í samanlögðum einkunnum og fjórða sæti á jafnvægisslá.
Með frammistöðu sinni vann hún sér sæti í úrslitum á jafnvægisslá daginn eftir og var hún önnur tveggja íslensku stúlknanna sem fékk að reyna fyrir sér í úrslitum. Öttu þar kappi tíu stúlkur á hverju áhaldi þvert á aldursflokka; youth, junior og senior. Ekki gekk eins vel og daginn áður en Margrét Júlía öðlaðist þarna dýrmæta reynslu.
„Mamma [Bryndís Jóna Magnúsdóttir] var í fimleikum þangað til hún þurfti að hætta út af meiðslum í olnboganum, pabbi hefur ekki verið í fimleikum,“ segir Margréti og skellir upp úr. Við hlægjum að þessu í skamma stund og erum sammála um að við sjáum hann ekki alveg fyrir okkur í fimleikum. „En hann var flottur í fótboltanum,“ bætir Margrét við eftir smá stund en pabbi hennar er Jóhann Birnir Guðmundsson, fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu.
„Þegar ég var fyrst valin í landsliðið þá vissi ég ekki hvernig tilfinningin yrði að keppa fyrir landsliðið og þá talaði ég við pabba og Davíð [Snæ Jóhannsson], af því að þeir hafa báðir reynslu af landsliðsverkefnum. Það var svo sannarlega gott að eiga þá að til að huga að andlega þættinum.“
Hvernig tilfinning er það svo að keppa fyrir hönd Íslands?
„Það er rosalega gaman, miklu skemmtilegra en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér. Maður fékk alveg gæsahúð þegar maður söng með þjóðsöngnum áður en maður fór að keppa.“
Kunnirðu þjóðsönginn?
„Já, ég kunni hann,“ segir Margrét og ljómar öll þegar hún rifjar þetta upp. „Maður kunni eitthvað í honum allavega.“
„Já, ég er búin að taka þátt í þessum tveimur mótum með landsliðinu, Norðurlandamótinu í lok október og Gymnova Cup í Belgíu um þarsíðustu helgi. Þetta var ótrúlega gaman, mjög margir þátttakendur og öðruvísi stemmning en maður hefur fengið að upplifa hérna heima. Þetta skilur eftir góðar minningar og maður kynntist mörgum skemmtilegum stelpur.“
Hvað er svo framundan?
„Ég ætla að halda áfram að æfa vel, vera dugleg og halda sæti mínu í landsliðinu. Fleiri mót eru áætluð næsta sumar en það eru engar upplýsingar komnar um þau, auðvitað út af Covid. Markmiðið er að halda áfram með landsliðinu og fá tækifæri til að keppa meira á stærri mótum – það er draumurinn,“ segir Margrét Júlía að lokum.