Njarðvík vann Suðurnesjaslaginn
Grannaliðin Njarðvík og Grindavík mættust í Suðurnesjaslag níundu umferðar Bónusdeildar karla í glæsilegu nýju íþróttahúsi Njarðvíkinga, sem ber heitið IceMar-höllin.
Njarðvíkingar leiddu nánast allan leikinn, með fjórtán stigum í hálfleik en minnstu munaði í lokin að Grindavík myndi stela sigrinum en sanngjarn Njarðvíkursigur staðreynd, 94-87.
Liðin voru jöfn fyrir þessa umferð, höfðu unnið fimm leiki og tapað þremur. Njarðvíkingar sakna Bretans Dwayne Lautier-Ogunleye en hann er handarbrotinn og verður frá í í nokkrar vikur í viðbót og eins er Maciej Baginski frá. Grindvíkingar mættu með sitt sterkasta lið og voru vel studdir af fjölmörgum Grindvíkingum sem margir hverjir búa á Suðurnesjum í dag. Blaðamaður átti samt von á að sjá fleiri Grindvíkinga og ekki síst, fleiri Njarðvíkinga á þessum stór-grannaslag.
Grindavík átti fyrsta sprettinn en fljótlega voru Njarðvíkingar búnir að jafna og gera gott betur en það, á augabragði voru þeir komnir tíu stigum yfir, 26-16 en opnunarleikhlutinn endaði 26-18.
Veigar Páll Alexandersson byrjaði mjög sterkt, var kominn með níu stig, þar af tvo þrista. Hinn frábæri Kani Njarðvíkinga, Khalil Shabazz, var sömuleiðis öflugur, kominn með tvo flotta þrista. Daniel Mortensen sá eini með eðlilegu lífsmarki hinum megin, var kominn með tvo þrista en hann átti frábæran síðasta leik á móti Keflavík, skilaði þá heilum 45 framlagspunktum.
Einhver hefði haldið að Grindvíkingar kæmu eins og særð dýr inn í annan fjórðung en það voru grænu ljónin sem sáu um grimmdina, trekk í trekk unnu þeir boltann eftir klafs og voru einfaldlega miklu grimmari í sínum aðgerðum og sömuleiðis heitir fyrir utan þriggja stiga línuna. Grindvíkingar hertu þá vörn sína og oft vilja þá körfur fylgja í kjölfarið hinum megin, Nökkvi Már Nökkvason setti flottan þrist og allt í einu var munurinn kominn niður fyrir tíu stigin og þegar annar fjórðungur var hálfnaður, hafði Devon Thomas minnkað muninn niður í sex stig með tveimur vítaskotum. Shabazz slökkti þá í Grindavík með flottum þristi og fékk auk þess vítaskot sem hann nýtti, Grindavík skoraði ekki og enn einn þristurinn, nú frá Mario Matasovic, fylgdi og munurinn kominn upp í þrettán stig á augabragði. Deandre Kane var svo dæmdur brotlegur í þriggja stiga skoti Shabazz og merkilegt nokk var hann ekki sáttur við þann dóm. Njarðvíkingar héldu frumkvæðinu til loka fyrri hálfleiks og leiddu að honum loknum, 51-37 en blessunarlega fyrir gula áttu þeir síðustu fjögur stig hálfleiksins.
Deandre Kane sem var bestur Grindvíkinga í fyrri hálfleik, opnaði seinni hálfleik og var þá kominn með 14 stig og sá eini gulra sem var kominn í tveggja stiga tölu, var næstum kominn með tvennuna góðu, kominn með átta fráköst. Frábær leikmaður og mikið væri spennandi að sjá hversu góður hann gæti verið ef hann sleppti öllum illum augnráðum til dómaranna og almennu tuði. Njarðvíkingar voru samt sem áður með tögl og haldir yfir leiknum, þegar rétt rúmar tvær mínútur lifðu þriðja leikhluta tók Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, leikhlé enda munurinn kominn í nítján stig, 70-51. Hans menn svöruðu kallinu og náðu sér í líflínu með góðum lokaspretti, staðan fyrir lokabardagann 72-59.
Grindvíkingar áttu gott áhlaup í byrjun fjórða leikhluta, stálu boltum og voru búnir að minnka muninn niður í átta stig en alltaf áttu Njarðvíkingar ás upp í erminni. Munurinn fór fljótt upp í fjórtán stig en Grindvíkingar svöruðu jafn harðan. Þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum tók Grindavík leikhlé og munurinn þá tólf stig, 88-76. Deven setti þrist og allt komið á suðupunkt í Icemar-höllinni. Njarðvíkingar áttu í vandræðum með að finna að körfuna, víti frá Kane og flottur þristur frá Val Orra og munurinn kominn niður í fimm stig, 88-83 og þá tók Rúnar, þjálfari Njarðvíkur, leikhlé. Allt lok, lok og læs og Grindavík átti auðvelt með að skora hinum megin, þvílík kúvending á einum leik. Njarðvík fékk dæmda á sig sóknarvillu í næstu sókn, 46 sekúndur eftir og Grindavík gat komist yfir en Deandre Kane tapaði boltanum á klaufalegan máta og Mario braut loksins ísinn, 90-87 og ein skotklukka eftir, Jóhann tók leiklé. Valur tók langan þrist sem rétt geigaði og Grindavík braut en Njarðvík var ekki komið í skotrétt. Næsta villa var skoðuð á skjánum og breytt í óíþróttamannslega villu og þar með þurfti ekki að spá meira í niðurstöðuna og sanngjarn Njarðvíkursigur staðreynd, 94-87.
Khalil Shabazz var stigahæstur Njarðvíkinga og endaði með 27 stig. Frábær leikmaður hér á ferð sem gæti átt heilan helling inni. Veigar Páll Alexandersson átti líka stórgóðan leik, endaði með 21 stig og gaf flestar stoðsendingar, eða alls sjö. Veigari hefur vaxið ásmegin síðan hann kom til baka frá námi í Bandaríkjunum á miðju síðasta tímabili. Dominykas Milka skilaði tvennu, 12 stig og 12 fráköst og Mario Matasovic setti 15 stig og tók 9 fráköst.
Deandre Kane var bestur Grindvíkinga, endaði næstum með þrefalda tvennu (24 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar) en tapaði reyndar 5 boltum og einum ansi mikilvægum þegar 24 sekúndur voru eftir og Grindavík hefði getað komist yfir. Frábær leikmaður en mikið væri gaman að sjá hann setja alla sínu orku í sjálfan leikinn en ekki hella sífellt úr skálum reiði sinnar í garð dómaranna. Devon Thomas skoraði 22 stig og gaf sex stoðsendingar en aðrir voru varla með.
Næstu leikir liðanna eru í bikarnum um helgina, Njarðvík mætir 1. deildar liði Selfyssinga en Grindvíkingar mæta Íslandsmeisturum Vals.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir á leiknum.