Patrik hefur slegið „føroyska málmetið“ á Íslandi
Færeyingurinn Patrik Johannesen hefur reynst Keflavík drjúgur í sumar en þessi hraði og kraftmikli framherji skoraði sitt níunda mark í deildinni í sumar þegar Keflavík vann ÍA 3:2 um helgina. Með þessu níunda marki á Patrik nú „føroyska málmetið fyri eitt kappingarár í Íslandi“ – með öðrum orðum er Patrik sá Færeyingur sem hefur skorað flest mörk á einu keppnistímabili í efstu deild karla á Íslandi en fyrra metið (átta mörk) setti Uni Jógvanson Arge þegar hann lék með Leiftri í Landsímadeildinni tímabilið 1999.
Patrik Johannesen er 27 ára gamall og gekk til liðs við Keflavík í byrjun þessa árs en fyrir utan að spila í Færeyjum hefur hann leikið tvö tímabil í Noregi, 2018 og 2021. Patrik samdi til tveggja ára þannig að hann er samningsbundinn út næsta ár. Víkurfréttir settust niður með Patrik og við spjölluðum um líf og tilveru færeyska knattspyrnumannsins, hvernig hann kunni við sig í Keflavík og hvernig hann verji tímanum hér.
„Þetta er mjög svipað því að vera heima svo mér líður ágætlega hérna,“ segir Færeyingurinn knái sem er fæddur í Tvøroyri á Suðurey en flutti síðar til Tórshavn þar sem hann býr nú.
Ég sá frétt þess efnis að þú værir nú markahæsti Færeyingurinn sem hefur spilað á Íslandi, er það rétt?
„Já, það er rétt. Um helgina skoraði ég níunda markið mitt í efstu deild í ár og þá hef skorað flest mörk allra Færeyinga á einu tímabili í efstu deild.“
Hvernig er það, gæti kannski verið að þú hafir skorað flest mörk allra Færeyinga í öllum deildum utan Færeyja?
Patrik veltir þessu fyrir stundarkorn sér og segir: „Ég bara veit það ekki, það gæti vel verið en ég er bara ekki viss. Kannski Todi Jónsson hafi skorað fleiri hjá FC København en ég hreinlega veit það ekki.“
Í fótbolta frá því að hann byrjaði að ganga
Hvað varstu gamall þegar þú byrjaðir í fótbolta, fimm, sex ára?
„Ég byrjaði fyrr, held bara þegar ég byrjaði að ganga,“ segir Patrik. „Pabbi spilaði fótbolta þangað til hann var um fertugt held ég og hann var þjálfarinn minn í gegnum yngri flokkana og í fyrstu deild í Færeyjum. Svo ég held að ég hafi byrjað strax.“
Patrik segir að fótbolti sé stærsta íþróttin í Færeyjum ásamt handbolta, blaki, sundi og róðri. Þá sé borðtennis og blak líka stundað að einhverju marki en hann hafi bara verið í fótbolta.
Er rétt að það sé enginn golfvöllur í Færeyjum?
„Nei, það er kominn einn völlur en ég held að hann sé bara sex holur og virkilega slappur. Svo er veðrið í Færeyjum ekki gott fyrir golf.“
Er veðráttan þar ekki svipuð og hérna?
„Ég myndi segja að veðrið sé betra hér en í Færeyjum.“
Patrik hefur leikið með U15 og U21 landsliðum Færeyja og þá hefur hann átján leiki með A-landsliði Færeyja á bakinu.
„Ég vil fara að byrja fleiri leiki með A-landsliðinu, það er stefnan hjá mér og ég hef átt gott tímabil í ár svo það gæti alveg verið að fara að gerast.“
Já, þú hefur átt gott tímabil í ár.
„Já, ég er mjög sáttur. Tímabilið byrjaði kannski ekki nógu vel en ég er ánægður með hvernig það hefur þróast.“
Þú hefur verið að skora mörk, ert hraður og sterkur á velli.
„Já, ég held að ég hafi flesta burði sem góður knattspyrnumaður þarf á að halda.“
Patrik skoraði úr vítaspyrnu eftir að brotið var á honum í leik Keflavíkur og Skagans á sunnudag og í stöðunni 2:2 fékk Keflavík aukaspyrnu á hættulegum stað.
Ég velti fyrir mér í leiknum gegn ÍA, þegar Joey Gibbs skoraði beint úr aukaspyrnunni, þá stóðuð þið báðir yfir boltanum. Ákvað hann hver skildi taka spyrnuna?
„Já, hann vildi taka vítið fyrr í leiknum en ég ákvað að taka vítið sjálfur, svo það voru sanngörn skipti að hann tæki aukaspyrnuna – hann var búinn að ákveða það. Þetta gekk fullkomlega upp og hann skoraði glæsilegt mark sem tryggði okkur sigurinn.“
Heldur góðu sambandi við vinina í Færeyjum
Patrik er einn hér á landi en kærastan hans varð eftir í Færeyjum þar sem faðir hennar átti við veikindi að stríða og lést í lok sumars. Hún kom þó og heimsótti Patrik í sumar og það gerðu foreldrar hans einnig – en hvernig verðu tímanum á meðan þú ert hérna?
„Það fer nú mikill tími í æfingar og keppni, ég hef lagt hart að mér við æfingar í sumar og tekið aukaæfingar. Núna einbeiti ég mér fyrst og fremst að fótboltaferlinum en ég varð seint góður knattspyrnumaður og vona því að eiga alla vega fimm góð ár eftir, jafnvel fleiri.“
Hvað með önnur áhugamál, áttu þau?
„Fyrir utan fótboltann spila ég tölvuleiki. Við erum þrír æskuvinir sem höldum alltaf góðu sambandi og hittumst alltaf þegar við erum heima í fríum. Ég spila Counter Strike og Catan Universe með þeim flesta eftirmiðdaga og þá tölum við vinirnir um allt milli himins og jarðar á meðan við erum að spila.
Ég er ekki mikill útivistarmaður og fer hvorki að veiða né í fjallgöngur, ég nota frítímann frekar í eitthvað rólegra en það. Ég veiddi þó eitthvað með afa mínum þegar ég var yngri en þegar ég eltist þá hætti ég því, ég flutti líka til Tórshavn þegar ég var um tvítugt.“
Keflavík hefur samning við Patrik út næsta ár en hvernig sér hann framtíðina fyrir sér? Nærðu ekki bara í kærustuna og þið komið ykkur fyrir hér á Íslandi?
„Við sjáum til með það,“ segir hann og glottir. „Maður á aldrei að segja aldrei.“