Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ray stýrir Sandgerðingum á hugsanlega síðasta tímabilinu  sem Reynir
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 7. desember 2024 kl. 07:00

Ray stýrir Sandgerðingum á hugsanlega síðasta tímabilinu sem Reynir

„Ég ætla að búa til kjarna, hann þarf að vera fyrir hendi,“ segir Ray Anthony Jónsson sem mun áfram stýra liði Reynis en næsta tímabil verður hugsanlega það síðasta undir merkjum Reynis því búið er að skrifa undir viljayfirlýsingu um sameiningu Reynis og Víðis og myndi sameiningin taka gildi tímabilið 2026.

Ray tók við liði Reynis fyrir þarsíðasta tímabil og stýrði liðinu strax úr þriðju deild upp í aðra. Það gekk ekki eins vel á liðnu sumri og Sandgerðingarnir fóru sömu leið til baka og munu því leika í þriðju deild á sínu síðasta tímabili undir merkjum Reynis.

„Við náðum strax upp mjög góðri stemmningu á fyrsta tímabilinu mínu og lentum í raun aldrei í neinni lægð, tryggðum okkur örugglega sigur í þriðju deildinni. Við náðum aldrei upp þessari sömu stemmningu í sumar og líklega var um að kenna að of miklar breytingar urðu á leikmannahópnum milli ára. Ég fékk nokkra mjög góða leikmenn að láni fyrra tímabilið en þeir sneru allir til sinna liða fyrir síðasta tímabil og mér tókst ekki að fylla þeirra skörð á sama máta. Því þurftum við að taka inn fleiri útlendinga og þeir náðu ekki þeim hæðum sem við vonuðumst eftir. Ég fékk síðan nokkra leikmenn að láni í glugganum en þá var það bara of seint, sjálfstraustið var farið og við náðum því miður ekki að rétta skútuna við og því varð fall staðreynd. Við vorum inni í öllum leikjum en náðum bara ekki að klára þá, önnur deildin er að sjálfsögðu sterkari en sú þriðja og eftir mannabreytingar og meiðsli í byrjun tímabilsins, sem leiddi til lélegrar byrjunar okkar, hrundi sjálfstraustið og við náðum aldrei upp sömu stemmningu og árið áður.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sameining Reynis og Víðis?

Ray framlengdi samning sinn um eitt ár, lengri samningur var ekki í boði þar sem lið Reynis verður hugsanlega lagt niður eftir næsta tímabil og í staðinn verður til sameinað lið Reynis og Víðis en búið er að undirrita viljayfirlýsingu félaganna og aðalfundir félaganna munu taka endanlega ákvörðun eftir áramót.

„Markmiðið hjá Reyni hefur verið að búa til kjarna heimamanna, hann þarf alltaf að vera til staðar og þó svo að við höfum fallið núna breytist það markmið ekkert. Það eru ungir og efnilegir leikmenn á leiðinni upp og hlakka ég mikið til að vinna með þeim. Hvort markmiðið er að komast strax upp aftur skal ég ekki segja til um núna en við viljum búa til góðan kjarna, ef það tekst er markmiðinu í raun náð. Vinir okkar úr Garði höfðu sætaskipti við okkur, þeir fóru upp úr þriðju deildinni og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim muni ganga. Ef ákvörðun með sameinað lið stendur, verður ákvörðun tekin eftir næsta sumar í hvaða deild hið sameinaða lið muni hefja leik, ef Víðismenn halda sæti sínu finnst mér nú líklegt að það verði ofan á en ég veit ekki hvernig þau mál standa, ákvörðun verður tekin um það eftir næsta tímabil. Ég er ánægður að fá að stýra Reynismönnum áfram, það verður heiður að fá að stýra þeim á hugsanlega, síðasta tímabilinu sem keppt verður undir merkjum Reynis, eftir það tekur við nýr kafli í sögu knattspyrnu í Suðurnesjabæ og ég held að framtíðin sé mjög björt. Mér líst vel á komandi sameiningu og vona að báðir aðilar geti unað sáttir við niðurstöðuna varðandi vallarmálin en mér skilst að gervigrasið muni rísa í Garðinum en framtíðarkeppnisvöllurinn verði í Sandgerði. Framtíðin er björt í Suðurnesjabæ,“ sagði Ray að lokum.

Ray í leik með Grindavík á móti Keflavík.