Samúel Kári skoraði glæsilegt mark í sigri á Vålerenga
Samúel Kári Friðjónsson lék vel með liði sínu, Vikings, í 4:1 sigri á fyrrum samherjum hans í Vålerenga þar sem hann skoraði þriðja mark Vikings.
Samúel kom Vikings í 3:1 á 73. mínútu en Vålerenga hafði gert sig líklegt til að jafna metin fram að því. Athyglisverð tölfræði úr leiknum sýnir að Vålerenga var með boltann 67% af leiknum og átti 544 sendingar gegn 258 sendingum Vikings. Vikings átti hins vegar sautján skottilraunir á meðan Vålerenga átti aðeins átta, það eru jú mörkin sem telja.
Með sigrinum fór Vikings upp fyrir Vålerenga á stigatöflunni og eru nú í fimmta sæti með tólf stig eftir sjö leiki. Rosenborg er í fjórða sæti með fjórtán stig en hafa leikið einum leiki fleiri en Vikings.
Samúel Kári gekk til liðs við nosku Víkingana í vetur eftir stutt stopp hjá þýska liðinu Paderborn en þar áður var hann á samningi hjá Vålerenga.
Mark Samúels var í fallegri kantinum en hann fékk sendinu fyrir utan teig og skrúfaði boltann innanfótar upp í samskeytin. Eftir markið fagnaði Samúel Kári með því að rífa sig úr treyjunni áður en hann hljóp að varamannaskýli fyrrum samherja sinna þar sem hann benti inn í skýlið og lét einhver vel valin orð falla. Athæfið féll alls ekki í kramið hjá stuðningsmönnum Vålerenga sem höfðu ýmislegt út á framkomuna að setja á Twitter. Samúel fékk að líta gula spjaldið fyrir athæfið en markið og fagnið má sjá í spilaranum hér að neðan.