Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sveindís Jane: „Alger gullmoli“
Sveindís Jane er nýliði í hóp A landsliðsins fyrir leikina gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM 2022. Leikurinn gegn Lettum hefst kl. 18:45 í dag á Laugardalsvelli. Mynd: Fótbolti.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 17. september 2020 kl. 12:19

Sveindís Jane: „Alger gullmoli“

Nýliði í A landsliði Íslands

Árið 2020 hefur verið ótrúlega viðburðarríkt hjá Sveindísi Jane Jónsdóttur, það má segja að líf hennar hafi tekið stakkaskiptum. Sveindís gekk til liðs við Pepsi Max-deildarlið Breiðabliks á láni frá Keflavík í byrjun tímabils þar sem hún hefur aldeilis slegið í gegn. Hún hefur sannað sig sem einn af lykilmönnum liðsins sem er í harðri baráttu við Íslandsmeistara Vals um Íslandsmeistaratitilinn í ár og munar nú aðeins einu stigi á liðunum þegar fjórar umferðir eru eftir en Breiðablik á leik til góða. Sveindís átti einmitt sviðið þegar toppliðin tvö mættust í fyrri umferð Pepsi Max-deildarinnar en hún gekk frá Íslandsmeisturunum í seinni hálfleik þar sem hún skoraði fyrstu þrjú mörkin í 4:0 sigri Breiðabliks.

Þó Sveindís sé ungur leikmaður hefur hún verið einn af burðarásum Keflavíkurliðsins undanfarin ár, hefur leikið 80 leiki með meistaraflokki Keflavíkur í deild og bikar. Sveindís var aðeins þrettán ára gömul þegar hún kom inn á í leik Keflavíkur og HK/Víkings í fyrstu deild kvenna í maí árið 2015 og hefur nánast verið fastamaður í liðinu síðan þá. Hún hefur leikið 41 landsleik með yngri landsliðum Íslands og í síðustu viku bættist enn ein rósin í hnappagat þessa öfluga sóknarmanns þegar Jón Þór Hauksson, þjálfari A landsliðs kvenna, kynnti hana sem nýliða í hóp A landsliðsins fyrir leikina gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM 2022. Leikirnir fara báðir fram á Laugardalsvelli, Ísland mætir Lettlandi fimmtudaginn 17. september klukkan 18:00 og Svíþjóð á sama tíma þriðjudaginn 22. september.

„Búið að vera svo skemmtilegt“

Við heyrðum í Sveindísi á mánudagskvöld en þá voru hún og liðsfélagar hennar nýkomnar á Hótel Hilton í Reykjavík þar sem liðið býr saman fram yfir landsleikina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum nýkomnar á hótelið, ég er bara lokuð þar inni í svona búbblu,“ segir Sveindís Jane.

– Hvernig finnst þér sjálfri þetta tímabil búið að vera?

„Mjög skemmtilegt og krefjandi, í byrjun tímabilsins var markmiðið bara að vinna sig inn í liðið. Þannig að það var smá stress að komast í byrjunarliðið svona fyrst – en svo hefur þetta allt verið á uppleið. Annars er þetta búið að vera svo skemmtilegt af því það hefur gengið svo vel.“

– Hvað er framundan?

„Það eru þessi tveir leikir, á móti Lettum og Svíum. Við tókum fyrstu æfinguna áðan af því að voru leikir hjá svo mörgum í gær og fyrradag, við tókum bara létta æfingu og erum rétt að byrja að hugsa út í Lettaleikinn núna. Hann verður þann 17. september. Núna er frí í Pepsi Max-deildinn svo maður þarf ekkert að pæla í henni, hún er bara sett á smá pásu.“

Stúdent í vor

Sveindís og kærastinn hennar, Sigurður Ingi Bergsson, útskrifuðust bæði úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor. Þau vita hvorugt hvert hugurinn stefnir í framhaldinu og ákváðu því að taka sér frí frá skóla í ár á meðan þau hugsa næstu skref.

– Þetta er búið að vera sérstakt ár, sama hvernig á það er litið, og viðburðarríkt hjá þér. Nýútskrifuð og hvert er stefnan þá tekin?

„Jú, ég einmitt útskrifaðist í vor en ætla að taka mér árspásu frá náminu á meðan ég geri upp við mig hvað ég ætla að læra. Núna er ég að vinna í Sandgerðisskóla og ætla að taka ár í vinnu áður en ég fer í háskóla – en ég er ekki viss um hvað ég ætla að læra. Þess vegna tók ég þessa pásu. Ég er að finna reyna hvar áhuginn liggur og vona að þessi pása hjálpi mér að finna eitthvað skemmtilegt sem mig langar að læra.

Ég er stuðningsfulltrúi í Sandgerðisskóla og svo bruna ég á æfingar í bænum eftir vinnu, svo það er nóg að gera. Kærastinn minn kláraði á sama tíma og ég og hann er í svipuðum sporum og ég – veit ekki hvað hann ætlar að læra. Svo hann tók sér líka árs pásu og fékk líka vinnu í Sandgerðisskóla,“ segir Sveindís og hlær. „Við vitum ekkert hvað við ætlum að gera. Það er svolítið fyndið að við skyldum svo fá vinnu á sama staðnum – en hentugt.“

– Lokaspurning: Ætlarðu að verða Íslandsmeistari?

„Já, ekki spurning! Það verður að vera svoleiðis til að fullkomna árið. Ég ætla að verða Íslandsmeistari.“

Vill sjá Sveindísi fara beint í byrjunarliðið

Í hlaðvarpsþættinum Heimavöllurinn sem Mist Rúnarsdóttir sér um á Fótbolti.net, og var á dagskrá nokkrum klukkutímum eftir að landsliðshópurinn var kynntur (10. september), sagði Gylfi Tryggvason, knattspyrnuþjálfari og umsjónarmaður fótboltahlaðvarpsins Fantabrögð, að honum finnist Sveindís eigi að koma beint inn í byrjunarliðið gegn Lettlandi.

„Ég vil persónulega bara sjá Sveindísi fara beint í byrjunarliðið. Ég myndi setja hana á kantinn. Út frá því hvernig hún er búin að vera,“ sagði Gylfi. „Sveindís er gersamlega búin að snýta þessari deild, hún er búin að vera mikill yfirburðarmaður á öllum völlum sem hún hefur spilað á. Mögulega er þetta algjör gullmoli fyrir íslensku þjóðina á næstu árum. Ég vil bara henda henni í djúpu laugina.“

Hér er hægt að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni