Tekst að klúðra lakkrístoppunum þegar hún bakar þá sjálf
Knattspyrnukona Sveindís Jane Jónsdóttir býst við að jólin í ár verði þau skemmtilegustu hingað til en hún og Siggi, kærasti hennar, hafa staðið í stórræðum að undanförnu þar sem þau eru að koma sér fyrir í Þýskalandi en þangað fluttu þau í byrjun mánaðar þar sem Sveindís er gengin í raðir Wolfsburg, eins besta knattspyrnuliðs í heimi.
Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?
Áður en ég flutti út þá fórum ég og Anna Sigga systir mín oftast bara í Kringluna eða Smáralindina til þess að versla jólagjafir handa fjölskyldunni – en núna þá versla ég það sem ég get hér í Þýskalandi og svo restina klára ég á Íslandi.
Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?
Ég og Siggi erum ekki byrjuð að skreyta neitt núna heima í Wolfsburg en við kannski gerum hana aðeins „jólakósí“ núna á næstu dögum – en þegar við komum heim til Íslands býst ég við því að það sé búið að skreyta eitthvað aðeins heima.
Skreytir þú heimilið mikið?
Ég hef aldrei þurft að hugsa um það mikið sjálf fyrr en núna. Það verður þá bara að koma í ljós hvort ég skreyti mikið í fyrsta skipti í minni eigin íbúð.
Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? Áttu þér uppáhaldssmáköku?
Ég elska að baka en það er ekki af því að ég er góð í því, langt því frá, en ég fæ oft skemmtilegar uppskriftir frá besta bakara Evrópu sem er engin önnur en Elenora Rós, vinkona mín. Uppáhaldssmákökurnar mínar eru lakkrístoppar sem einhver annar en ég baka þar sem mér tekst eiginlega alltaf að klúðra þeim þegar ég baka þá sjálf.
Eru fastar jólahefðir hjá þér?
Nei, ég get ekki sagt að það séu einhverjar fastar hefðir.
Hvernig er aðventan – hefðir þar?
Eins og ég segi þá er engin sérstök hefð nema að við fjölskyldan höfum það bara mjög næs. Ég og systir mín erum duglegar að baka smákökur. Við systurnar sjáum svo um að borða allt nammið á heimilinu og allar kökurnar sem við bökuðum.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?
Mér finnst alltaf gaman um jólin, það eru engin sérstök jól sem ég man betur eftir en einhver önnur. Ætli jólin í ár verði ekki þau allra skemmtilegustu hingað til, þar sem ég hef ekki hitt fjölskylduna mína núna í svolítinn tíma.
Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?
Já, við fjölskyldan höfum sótt í Baptistakirkjuna sem er á Fitjum. Yndislegt fólk sem er þar að kenna um kristna trú.
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Ég er alltaf ánægð með allar jólagjafir, allt sem ég hef fengið er eftirminnilegt.
Er eitthvað sérstakt sem þig langar að fá í jólagjöf?
Þetta er alltaf erfiðasta spurning sem ég fæ í desember af því að mig vantar ekkert og veit því ekki hvað ég vil fá í jólagjöf.
Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?
Alltaf hamborgarhryggur heima hjá mömmu og pabba.
Hvernig var árið 2021 hjá þér og þinni fjölskyldu? Hvert var farið í sumarleyfi?
Árið var frábært, mjög viðburðaríkt og margar nýjar áskoranir. Ég fór til Íslands í sumarfríinu mínu, það var alveg æðislega gaman.