Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þjálfari hjá besta liði Noregs
Fannar (t.h) ásamt goðsögninni Solskjær.
Sunnudagur 8. febrúar 2015 kl. 15:11

Þjálfari hjá besta liði Noregs

Njarðvíkingurinn Fannar Berg þjálfar hjá unglingaliði Molde samhliða meistaranámi

Njarðvíkingurinn Fannar Berg Gunnólfsson hefur hreiðrað um sig í norska bænum Molde, þar sem hann stundar nám í Sport Management í Molde University College og þjálfar unga knattspyrnumenn samhliða í akademíunni hjá norska meistaraliðinu Molde. F.K. Liðið er tvöfaldur meistari en Molde hefur verið mikið Íslendingalið í gegnum tíðina.

Fannar segir námið áhugavert og fjölbreytt en aðeins eru 20 nemendur eru teknir inn hverju sinni. Fannar, sem er þrítugur, hefur þjálfað yngri flokka í fótbolta allt frá því að hann var 17 ára gamall, bæði hjá Njarðvík, Grindavík, Reyni og síðar Fylki þar sem hann þjálfaði m.a. varaliðið og 2. flokk. Fannar hyggst leggja knattspyrnuþjálfun fyrir sig og því sótti hann í þetta spennandi nám. Hann þjálfar nú hjá svokölluðu G15 unglingalið Molde en þar má finna marga af efnilegri leikmönnum Noregs og fjölmarga unglingalandsliðsmenn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingur og æskuvinur lék með Molde

Kennari við skólann vissi af þjálfunarferli Fannars á Íslandi og hvatti hann til þess að sækja um starf hjá Molde. Fannar var á báðum áttum enda vildi hann einbeita sér að fullu að krefjandi náminu. Um leið og hann fór að kanna aðstæður hjá Molde, hafði annað félag úr 2. deild í Noregi samband við hann og vildi fá hann til starfa. Boðið var gott og Fannar var á þeim buxunum að taka því. Eftir að hafa hugsað málið vandlega varð Molde svo fyrir valinu, en Fannar segist geta hugsað sér að þjálfa jafnvel í Englandi í framtíðinni og því er gott að hafa verið á mála hjá félagi eins og Molde. Alls eru um 20 þjálfarar á mála hjá félaginu sem sýnir kannski hversu stórt félagið er. Eins og áður segir er Molde mikið Íslendingalið.  Æskuvinur Fannars úr Njarðvík, Óskar Örn Hauksson, var t.d. ungur að árum á mála hjá Molde. Fannar segir að vel sé talað um Íslendinga hjá félaginu og að menn muni vel eftir Óskari sem var hjá félaginu árið 2001.

„Það hjálpar mér gífurlega að vera Íslendingur en gengi landsliðsins okkar hefur vakið athygli allra í fótboltaheiminum. Norðmenn vilja gjarnan heyra hvað Íslendingurinn hefur til málanna að leggja.“ Liðinu hefur gengið afar vel undanfarin ár og er þetta 25 þúsund manna bæjarfélag aðallega þekkt vegna knattspyrnu. „Ef það væri ekki fyrir fótboltann þá myndi helmingurinn af Noregi ekki vita neitt um Molde,“ segir Fannar, en öll aðstaða hjá félaginu er eins og best verður á kosið. Völlur félagsins tekur um 12.000 áhorfendur og æfingasvæðið er stórt og vel útbúið.

Erfitt að halda andliti í návist kóngsins Solksjær

Manchester United goðsögnin Ole Gunnar Solskjær þjálfaði liðið fyrir tveimur árum, en hann hélt eftir það til Cardiff þar sem hann stoppaði stutt við. Nú þjálfar hann unglingalið í nágrannabænum Kristiansund. Solskjær er goðsögn hjá Molde þar sem hann lék á yngri árum, en þar vann hann þrjá titla sem þjálfari áður en hann hélt aftur til Englands.

„Hann er algjör kóngur í Molde. Hann er ekki ennþá búinn að fara að horfa á leik með liðinu, þar sem hann er hræddur um að setja pressu á þjálfarann,“ segir Fannar og hlær. Fannar hitti Solskjær þegar lið þeirra léku æfingaleik fyrir skömmu.

„Það var erfitt að halda andliti þegar ég var að tala við hann. Það var sérstakt að reyna að vera „professional“ án þess að láta aðdáun sína í ljós,“ en Fannar er harður stuðningsmaður Manchester United og á margar góðar minningar tengdar Solskjær hjá United. „Ég man eftir öllum deginum þegar hann tryggði okkur sigurinn gegn Bayern árið 1999,“ en þar á Fannar við frægt mark Solskjær sem tryggði Manchester þrennuna frægu.