Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tvenna Elíasar kom Keflvíkingum á toppinn
Elías Már Ómarsson skoraði bæði mörk Keflvíkinga í leiknum. Hér fagnar hann seinna marki sínu. VF-myndir: HIlmar Bragi Bárðarson
Mánudagur 12. maí 2014 kl. 21:00

Tvenna Elíasar kom Keflvíkingum á toppinn

– Keflvíkingar yfirspiluðu Blika. – Sáið myndirnar!

Keflvíkingar eru á toppi Pepsi-deildar karla eftir 2-0 sigur gegn Blikum á Nettóvellinum í kvöld. Hinn efnilegi Elías Már Ómarsson skoraði bæði mörk Keflvíkinga í leiknum en hann fékk sæti í liðinu vegna meiðsla hjá Herði Sveinssyni. Keflvíkingar eru með fullt hús stiga, eða níu stig talsins eftir þrjár umferðir.

Elías Már var sprækur í framlínu heimamanna allt frá upphafi og lét mikið að sér kveða á upphafsmínútunum og kom sé í nokkur ágætis færi. Sigurbergur Elisson fékk sömuleiðis upplagt tækifæri til þess að koma Keflvíkingum yfir eftir hornspyrnu, en honum brást bogalistin. Jóhann B. Guðmundsson var sömuleiðis ekki í liði Keflvíkinga sökum vægra meiðsla en Magnús Sverrir Þorsteinsson kom inn í hans stað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar skammt var eftir af fyrri  hálfleik skoruðu Blikar mark sem dæmt var af vegna þess að boltinn hafði farið aftur fyrir endamörk. Keflvíkingar mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en heimamenn voru ekki að nýta færi sín nógu vel. Staðan var 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og Keflvíkingar óheppnir að hafa ekki skorað.

Keflvíkingar þjörmuðu enn frekar að Blikum í upphafi seinni hálfleiks og áttu hvert færið á fætur öðru. Inn vildi boltinn hins vegar ekki. Þar til að Elías Már Ómarsson tók til sinna ráða, en hann skoraði eftir sendingu frá Magnúsi Sverri og kom þar með Keflvíkingum yfir. Verskuldað hjá heimamönnum sem voru jafnvel öflugri í seinni halfleik en þeim fyrri. Skömmu eftir markið hefði Einar Orri svo getað aukið forystu heimamanna en hann hitti boltann hreinlega ekki af stuttu færi eftir að boltinn hafði óvænt fallið fyrir fætur hans. Hinn eldfljóti Elías Már var svo aftur á ferðinni þegar hann slapp inn fyrir vörn Blika og renndi boltanum framhjá Gunnleifi í markinu þegar innan við tíu mínútur lifðu leiks. Þar með var ljóst að Keflvíkingar væru að fara að taka toppsæti deildarinnar eftir frábæra frammistöðu gegn einu af þeim liðum sem spáð var góðu gengi í deildinni.

Heilt yfir voru Keflvíkingar með yfirburði á öllum sviðum knattspyrunnar í leiknum. Með meiri yfirvegun hefðu mörkin hæglega getað orðið fleiri en nóg var af færum hjá heimamönnum.

Áhorfendur voru 1250 á Nettóvellinum í kvöld.

Byrjunarlið Keflavíkur í leiknum: Jonas Sandqvist, Magnús Þórir Matthíasson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Bojan Ljubicic, Sigurbergur Elisson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Halldór Kristinn Halldórsson, Endre Ove Brenne, Sindri Snær Magnússon, Elías Már Ómarsson.
Bekkur: Árni Freyr Ásgeirsson, Andri Fannar Freysson, Unnar Már Unnarsson, Paul McShane, Daníel Gylfason, Theodór Guðni Halldórsson, Ray Anthony Jónsson.













Elías Már átti ekki í vandræðum með að renna knettinum framhjá Gunnleifi í Blikamarkinu eins og sjá má í þessari syrpu sem Hilmar Bragi tók á leiknum nú áðan.