„Fór að grenja þegar stóri pakkinn var ekki til mín“
Sveinbjörg S. Ólafsdóttir, teymisstjóri hjúkrunarmóttöku HSS hefur verið í framlínu hjúkrunarfólks Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í heimsfaraldri. Hún er mikill sælkeri og byrjaði að baka með mömmu sinni ung að árum en meðal minninga frá jólum er þegar risastór pakki var ekki til hennar. Sveina deilir hér með okkur ýmsu áhugaverðu um jólin.
Nafn og starf/staða:
Sveinbjörg S. Ólafsdóttir teymisstjóri hjúkrunarmóttöku HSS
Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?
Allt í bland, reyni að versla í Keflavík eins mikið og ég get, vil styrkja verslun í heimabyggð og svo auðvitað kemur netið sterkt inn.
Hvað með jólaskreytingar, voru þær fyrr í ár?
Já, Freyja Líf dóttir mín heldur mér við efnið og það var byrjað að skreyta fyrr en vanalega þessi jól. Við sjáum um að skreyta inni en eiginmaðurinn og strákarnir sjáum útiskraut.
Skreytir þú heimilið mikið?
Bara hæfilega mikið held ég, þetta er mikið heimagert jólaskraut og jólaskraut með sögu.
Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst? Áttu þér uppáhaldssmáköku?
Já, ég er mikill sælkeri og byrjaði að baka með mömmu minni mjög ung, finnst kökudeig mjög gott og elskaði að þvo upp og sleikja áhöldin. Núna rífast börnin mín um það og kökurnar borðast eiginlega allt upp jafnóðum og þær eru bakaðar þannig við bökum jafnt og þétt á aðventunni. Uppáhalds kökurnar eru Sörur sem ég fæ hjá mömmu, baka sjaldan sjálf eftir að elsti sonurinn kláraði allar úr frystinum ein jólin en ætlum að baka þær saman núna þessi jól, honum er loksins fyrirgefið. Svo eru það mömmukökur, lakkrístoppar, súkkulaðibitakökur og svo prufum við eitthvað nýtt hver jól.
Eru fastar jólahefðir hjá þér?
Já, yndislegasta við jólin er samveran með fjölskyldum og vinum. Covid hafði talsverð áhrif á fastar jólahefðir í fyrra en maður vonar að jólin verði með hefðbundin sniði núna í ár. Á aðfangadag í hádeginu mætum við í möndlu grjónagraut hjá foreldrum mínum. Við höfum haldið jólin heima hjá okkur síðan við fórum að búa árið 1998 og við höfum fengið foreldra mína og móðurbróðir önnur hvor jól á aðfangadag síðustu ár. Á jóladag þá hittum við tengdafjölskylduna, stór fjölskylduna í jólaboð þar sem er spilað púkk og allir koma með veitingar svokallað Pálinuboð. Um kvöldið er svo hangikjötsveisla þar sem nánasta tengdafjölskyldan hittist. Annan í jólum hefur verið jólaboð hjá foreldrum mínum. Svo er auðvitað fundinn tími til að spila, lesa bækur og slaka á.
Hvernig er aðventan - hefðir þar?
Það tilheyrir jólunum að fara á tónleika, ekkert endilega alltaf það sama ár eftir ár, sækjum jólatónleika í Keflavíkurkirkju, Hljómahöllinni og það sem okkur langar að fara á hverju sinni. Auðvitað hefur Covid áhrif en maður sér hvernig þetta þróast og spilar úr þeim spilum sem maður fær.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?
Fyrsta jólaminning mín var að mig minnir þegar ég var fimm ára. Ég er yngsta barn og fékk alltaf flesta pakka og líka stærstu. Á Þorláksmessu er kominn risa stór pakki fyrir framan jólatréð sem var nánast jafn stór jólatrénu, ég var svo spennt og las miðann, en þvílík vonbrigði að þetta var ekki til mín heldur pabba. Ég fór inn í herbergi og fór að grenja og tilfinningin og vonbrigðin voru ólýsanleg, ég tók svo ekki gleði mína almennilega á ný fyrr en ég sá gjöfina þegar pakkinn var opnaður, skrifborðsstóll. Ég var feginn að ég fékk ekki þessa gjöf.
Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?
Já, það hef ég gert frá því ég var barn. Ég ólst upp við það að fara í kvöldmessu á aðfangadag í Njarðvíkurkirkju, hugljúf minningin að fara til Rúnu ömmu og Bárð afa á Þórustígnum og svo hlaupa niður eftir í kirkjuna, kveikja á kertum og syngja jólasálma. Svo eftir að ég eignaðist mín börn hef ég farið í barnamessu kl. 16 í Keflavíkurkirkju frá því það byrjaði að undanskildum jólunum í fyrra. En núna ættu börnin að vera orðin nægilega gömul að fara í messu kl. 18. En við sjáum hvað setur þessi jólin.
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Eftirminnilegasta jólagjöfin var þegar ég var 11 ára og fékk skíði í jólagjöf frá foreldrum mínum. En þau hefðu ekki mikið vit á skíðabúnaði og einhverja hluta vegna keyptu þau gönguskíði handa mér. Ég fattaði það ekkert fyrst en þegar ég fór í Grænásbrekku að renna mér með krökkunum þá tók ég eftir því að mín skíði voru miklu mjórri en allra hinna og auðvelt fyrir mig að skíða upp brekkur. Þannig ég lærði að skíða á gönguskíðum og skíðaði brekkurnar á þeim. Ég minnist þess líka þennan vetur þegar ég fór í skíðaferð með skólunum í Hveradali. Ég skammaðist mín að vera á þessum skíðum og eldri krakkarnir fóru að hlægja af þessu og spyrja mig út í þetta, þá sagði ég bara að ég hafi vorkennt vinkonu minni sem ætti þessi skíði og að ég hefði leyft henni að prufa mín skíði. Næstu jól á eftir fékk ég svo alvöru Blizzard skíðabúnað.