Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Get eiginlega ekki beðið eftir því að fá liðið til landsins og halda gott partí“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 7. mars 2020 kl. 07:09

„Get eiginlega ekki beðið eftir því að fá liðið til landsins og halda gott partí“

Már Gunnarsson með tónleikana Alive í Stapa 13. mars

Már Gunnarsson heldur stór-stórtónleika „Alive“ ásamt færustu hljóðfæraleikurum Póllands í Stapa þann 13. mars. Eins og kunnugt er þá völdu Víkurfréttir Má sem Suðurnesjamann ársins 2019, frá því hann fékk útnefninguna um síðustu áramót hefur verið í nógu að snúast hjá kappanum. Hann hélt utan strax á nýju ári til sundæfinga og keppni.

„Ég stökk til Lúxembogar og þaðan til Búlgaríu og svo til Noregs að keppa. Ég tók mánuð af mjög þéttri dagskrá við æfingar og keppni. Ég byrjaði í Lúxemborg þar sem ég var við æfingar og hitti gamla vini en svo fór ég upp í fjöllin í Búlgaríu þar sem ég æfði með búlgarska landsliðinu í 2200 metra hæð. Þar er umhverfið öðruvísi en hér heima og það þarf að aðlagast nýjum hlutum. Þar er enginn lúxus og tungumálakunnátta Búlgara er almennt ekki góð þannig að maður þurfti að læra að vera í samskiptum við fólk með öðrum hætti.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

- Þetta voru engir meðal-Jónar sem þú varst að æfa með.

„Nei, þetta voru allt einhverjir Ólympíu- og heimsmeistarar. Við höfum farið þangað tvisvar. Vorum þarna í fjórar vikur í fyrra og tvær nú í ár og þetta hefur reynst okkur vel.

Það sem okkur þykir dýrmætt er að það er enginn lúxus þarna en það er rosalega góður andi og allt fólkið mjög kurteist. Stuðningurinn við okkur er ótrúlegur með því að leyfa okkur að vera þarna, það er alls ekki sjálfgefið. Þér er heilsað á hverju horni og öll samskipti eru til fyrirmyndar, þó svo þú sért einhver útlendingur sem þeir hitta sjaldan.“

- Við sáum það á samfélagsmiðlum að þú tókst lagið í lok ferðar sem gerði stormandi lukku.

„Já, ég tók með mér hljómborðið út og það voru haldnir smá tónleikar í lokin þar sem voru um 200 manns, allt íþróttamenn. Stemmningin var mjög sérstök og það var eins og ég hafi skorað mark eftir hvert lag. Menn voru hoppandi uppi á borðum og mjög gaman.“

- Svo var eitt óskalag.

„Já, Queen-lagið We Are The Champions, sem ég þurfti að læra á staðnum og það var mjög gaman.“

- Þarna var fullt af meisturum.

„Já, nákvæmlega. Allan daginn.“

- En að öðru. Það eru stórtónleikar framundan.

„Já, þetta eru tónleikar sem við erum búin að skipuleggja í langan tíma og ég kalla Alive og eru í raun framhald af útgáfutónleikunum sem ég var með í Stapa fyrir ári síðan og heppnuðust alveg rosalega vel. Okkur langaði að gera þetta aftur og þess vegna er ég að flytja inn níu manna stórhljómsveit frá Póllandi. Þetta er einstaklingar sem spiluðu inn á plötuna mína. Ísold systir mín verður þarna og einnig gestasöngkonan Sigríður Thorlacius. Ég get eiginlega ekki beðið eftir því að fá liðið til landsins og halda gott partý.“

- Hvaða tónlist ertu að fara að spila?

„Þetta er tónlist af plötunni minni Söngur fuglsins og svo er einnig eitthvað nýtt efni. Svo tökum við Sigríður Thorlacius lagið Líttu sérhvert sólarlag, sem er algjör klassík og verður að vera á þessum tónleikum.“

- Það er gaman að fá Sigríði með ykkur.

„Alveg yndislegt. Hún er svo góð manneskja og gaman að hafa hana með.“

Almennt verður tónlistarstíllinn á tónleikunum mjög fjölbreyttur og vonandi eitthvað fyrir alla, t.d rokk, popp, country, latino, rapp, dægurlagatónlist og instrumental-músík.

Húsið og barinn opnar 13. mars á slaginu 18:30 en sýningin hefst klukkan 19:30 og stendur yfir í tæpar tvær klukkustundir með fimmtán mínútna hléi. Miðaverð er 3.900 krónur en miðasalan fer fram á tix.is.