Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

30 ára afmælis-Óperugala af bestu gerð
Laugardagur 30. nóvember 2024 kl. 08:08

30 ára afmælis-Óperugala af bestu gerð

Í tilefni af 30 ára afmæli sveitarfélagsins 2024 samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar í lok síðasta árs að leggja nokkurt fé í sjóð sem einstaklingar, félög, menningarstofnanir o.fl. gætu sótt um styrki í til fjölbreytts viðburðarhalds í tilefni af 30 ára afmæli sveitarfélagsins. Fjölmargar umsóknir bárust og þar á meðal var ein frá óperufélaginu Norðurópi sem hugðist, í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, efna til fjölbreyttra óperugala hátíðartónleika sem fóru svo fram í Stapa Hljómahöll laugardaginn 16. nóvember síðastliðinn.

Norðuróp hefur starfað í Reykjanesbæ frá 2001 en var stofnað á Akureyri 1999 og fagnar því 25 ára afmæli um þessar mundir. Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari, hefur verið listrænn stjórnandi frá upphafi og hefur félagið flutt fjöldan allan af óperum og óperutónleikum á þessum 25 árum undir hans stjórn. Margir ungir söngvarar hafa fengið tækifæri til að syngja óperuhlutverk á vegum Norðuróps í bland við landsþekkta stórsöngvara og þannig fengið tækifæri til að stíga sín fyrstu skref á óperusviðinu. Nánari upplýsingar má finna á www.nordurop.is

SSS
SSS

Á þessum tónleikum kom fram fjöldi heimamanna, bæði sem hluti af hátíðarkórnum eða sem einsöngvarar, ásamt kennurum og langt komnum nemendum úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem léku í hljómsveit sem annars var skipuð atvinnuhljóðfæraleikurum úr Reykjavík undir stjórn Jóhanns Smára en konsertmeistari var Una Sveinbjarnardóttir. Útkoman var í stuttu máli stórglæsilegir hátíðartónleikar af bestu gerð þar sem söngvarar og hljómsveit fóru á kostum og heimamaðurinn Kristján Jóhannsson kynnti hvert atriði af fætur öðru af sinni alkunnu snilld. Í einu atriðinu söng sameiginlegur kór barna úr Barnakór Sandgerðisskóla, Barnakór Gerðaskóla og Englaröddum Keflavíkurkirkju.

Efnisskráin samanstóð af þekktum aríum og kórum úr óperum eftir Verdi, Mozart, Puccini, Bizet o.fl. Fyrir hlé komu fram einsöngvararnir Arnheiður Eiríksdóttir og Dísella Lárusdóttir, sem báðar hafa gert garðinn frægan erlendis, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, Aron Cortes, Cesar Alonzo Barrera, sem kom alla leið frá Argentínu af þessu tilefni, Davíð Ólafsson, Jelena Raschke, Birna Rúnarsdóttir og Rósalind Gísladóttir. Auk þess flutti hátíðarkórinn nokkra óperukóra, þar á meðal einn úr Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar, bróður Jóhanns Smára.

Eftir hlé bættust í hópinn þau Marius Kraujalis, Alexandra Chernyshova, Guðmundur Karl Eiríksson, Júlíus Karl Einarsson, Bragi Jónsson, Bryndís Schram Reed, Linda Pálína Sigurðardóttir og Steinunn Björg Ólafsdóttir. Er skemmst frá að segja að þeir fjölmörgu tónleikagestir sem fylltu Stapann skemmtu sér konunglega á þessum stórviðburði í menningarlífi Reykjanesbæjar og megum við vera bæði stolt og þakklát fyrir að hafa á slíku hæfileikafólki að skipa í bæjarfélaginu okkar.   

Til hamingju öll sem að undirbúningi og framkvæmd þessa stór viðburðar komu.

Kjartan Már Kjartansson, fiðluleikari og bæjarstjóri