Aukamiðar á heimatónleika í sölu
Miðar á viðburðinn Heimatónleikar á Ljósanótt seldust upp á innan við þremur mínútum sl.föstudag og fengu mun færri miða en vildu. Nú hafa forsvarsmenn tónleikanna ákveðið að bæta við 100 miðum í sölu. Miðarnir verða seldir á Tix.is og hefst sala á þeim föstudaginn 24.ágúst kl.10.00. Aðeins verður hægt að kaupa 2 miða í hverri pöntun. Hljómsveitin Hjálmar sem átti að spila á Skólavegi 12 hefur því miður ekki tök á spila eins og auglýst hafði verið þar sem snillingurinn Sigurður Guðmundsson er að spila í stórsýningunni Ellý þetta sama kvöld. Við teljum okkur samt ekki svíkja tónlistargesti þar sem stórsveitin Baggalútur kemur í stað Hjálma. Ef einhver er í sárum vegna þessa þá að sjálfsögðu er hægt að fá miðann endurgreiddan nú eða selja hann öðrum þar sem marga vantar miða.
Við minnum tónleikagesti á að sækja miðana sína tímanlega í DUUS-hús en þeir verða afhentir frá mánudeginum 27. ágúst. Opið er í Duushúsum til kl.17.00 frá mánudegi til miðvikudags og mælum við með að fólk nálgist miðana á þeim tíma en ef einhverjir hafa ekki tök á því má koma þar við til kl.18.00 á fimmtudeginum og föstudeginum, eftir það verða ósóttir miðar á Skólavegi 12. Að lokum minnum við fólk á að tónleikastaðirnir eru sjö talsins og í einhverjum húsunum er spilað utandyra svo best er að klæða sig eftir veðri, segir í frétt frá aðstandendum tónleikanna.