Dýrasta pizza Íslandssögunnar?
Ingólfur Karlsson eigandi veitingastaðarins Langbest var staddur upp í Kerlingafjöllum um helgina þar sem hann var ásamt Jeppavinafélaginu sem er Suðurnesjadeild 4x4 klúbbsins á þorrablóti. Það er kannski ekki ýkja fréttnæmt sem slíkt þó blótið hafi örugglega verið hin mesta skemmtun. Eitthvað var Ingólfur svangur á föstudeginum og vissi af félögum sínum sem voru staddir á Langbest og voru á leið upp í Kerlingarfjöll.
Hann gerði sér lítið fyrir og pantaði eitt stykki stóra Langbest pítsu með öllu. „Sendingin tók 10 klukkutíma og pítsan var orðin köld þegar hún kom á staðinn. Ég borgaði því ekki neitt fyrir hana,“ segir Ingólfur en uppátækið vakti mikla kátínu enda um létt grín að ræða. Þó svo að Ingólfur hafi ekki borgað fyrir pítsuna þá var þetta sennilega með dýrari sendingum sem að sendillinn Matthías Sigbjörnsson hefur farið í en hann hefur starfað sem sendill hjá Langbest um árabil. Bakan víðförla hvarf síðan ofan í ferðalangana á nokkrum sekúndum að sögn Ingólfs sem tók það þó fram að hann hefði ekkert út á þorramatinn að setja en hann gæddi sér einnig á honum með bestu lyst á laugardeginum.
Eknir voru 232km og tók sendingin 10 klukkutíma og 24 mínutur frá því að lagt var á stað þar til að mætt var í skálann í kerlingarfjöllum. Það voru Matthías Sigbjörnsson og Árni Freyr Rúnarson, stjórnarmenn Jeppavinafélagsins sem tóku þetta verk að sér. Eins og sést á myndunum kom pítsan í heilu lagi og Ingólfur bauð öllum krökkunum uppá pítsu.
Í Kerlingarfjöllum voru komnir saman 63 jeppamenn af Suðurnesjunum á 26 fjallajeppum til að borða góðan þorramat og njóta lífsins.
Myndir frá Kerlingarfjöllum:
Jóhann Berthelsen