Fermingarstrákur sem ætlar sér langt í körfubolta
Marinó Freyr Ómarsson er eitt fermingarbarna í Grindavík en sökum hamfaranna var fermingarundirbúningurinn ekki með hefðbundnu sniði fyrir grindvísk fermingarbörn. Marinó veit vel hvað hann ætlar sér þegar hann verður stór en hann er einn sá efnilegasti á Íslandi í sínum aldurs-flokki í körfubolta.
Marinó hefur ekki mikinn samanburð við fermingarfræðslu undanfarinna ára, hann og önnur fermingarbörn í Grindavík þurftu einfaldlega að taka því sem að höndum bar.
„Ég trúi á guð og þess vegna er ég að fermast. Ég þekki auðvitað nokkra sem voru að fermast í fyrra en var ekkert sérstaklega að fylgjast með þeirra fermingarundirbúningi. Okkar undirbúningur byrjaði eins, við fórum í frábæra ferð í Vatnaskóg í upphafi skólaársins og svo byrjaði vikuleg fræðsla í lok september. Ég var búinn að vera mæta í messur en svo breyttist auðvitað allt 10. nóvember. Við gátum ekkert gert fram að áramótum en sem betur fer gátum við farið aftur í Vatnaskóg og náðum að vinna upp þann tíma sem við misstum.
Ég ætla að reyna poppa veisluna upp, við ætlum að hafa bingó og skemmta okkur saman. Ég hlakka mikið til, auðvitað hlakka ég til að fá gjafir og vil helst fá pening. Ég vil byrja safna mér fyrir bíl. Við ætluðum að vera með veisluna í golfskálanum í Grindavík en þurftum auðvitað að breyta því, verðum í sal VM [Vélstjórar og málmiðnaðarmenn].“
TÁNingur
Marinó vissi ekki hvað táningur þýðir, það að fara úr því að vera barn upp að tólf ára aldri, í að verða þretTÁN, fjórTÁN o.s.frv., táningur. Fann hann mun á því að verða táningur og hvað ætlar hann að verða þegar hann verður stór?
„Ég fann engan mun en pabbi segir að ég hafi breyst þannig frá því að fara úr að vera tólf ára yfir í þrettán, að yngri var ég mættur eldsnemma á laugardagsmorgni, vakti hann og bað hann um að koma upp í íþróttahús með mér í körfubolta, yfir í að ég vildi sofa lengur þegar hann kom og reyndi að vekja mig. Ég veit alveg hvað ég ætla mér þegar ég verð stór, ég ætla að verða atvinnumaður í körfubolta. Ég er búinn að vera í úrvalsliði míns aldursflokks, við vorum að keppa í Lettlandi og Litháen fyrr í vetur og erum að fara aftur í vor til Lettlands. Í öðru mótinu í vetur var ég valinn í úrvalslið mótsins. Ég ætla mér að leggja hart að mér, ég verð vonandi jafnstór eða stærri en pabbi sem er 198 sentimetrar, það er mjög góð hæð fyrir leikstjórnanda, sem er sú staða sem spila. Það hjálpar mér í körfuboltanum í dag að ég handleggsbrotnaði á hægri þegar ég var yngri en á meðan skaut ég bara með vinstri og hef haldið því áfram, þótt ég sé rétthentur. Ég er eiginlega jafnvígur á báðar hendur, því getur verið erfitt fyrir varnarmanninn að stoppa mig því ég get bæði farið hægra megin og vinstra megin fram hjá honum.
Ég ætla að klára grunnskólann en hvort ég fer svo í highschool í Bandaríkjunum eða í einhverja akademíu hjá liði í Evrópu, kemur bara í ljós. Það yrði gaman að komast í háskólaboltann í Bandaríkjunum en hvað ég mun læra veit ég ekki núna, ég hef nægan tíma til að taka ákvörðun um það. Ég ætla bara að halda áfram hér á Íslandi fyrst og vera duglegur að æfa, ég ætla mér að ná mjög langt,“ sagði þessi ungi og efnilegi körfubolta-strákur að lokum.