Fimmtán milljónir króna söfnuðust í Góðgerðarfest Blue Car Rental
Blue Car Rental blés til októberfest hátíðar í húsnæði fyrirtækisins að Hólmbergsbraut 1 í Keflavík 15. október síðastliðinn. Tæplega 600 manns sóttu hátíðina en annað árið í röð var um að ræða Góðgerðarfest þar sem fyrirtækjum og einstaklingum bauðst að taka þátt í að styðja við góð og þörf málefni í nærsamfélagi Blue Car Rental.
Í aðdraganda kvöldsins og á kvöldinu sjálfu söfnuðust rúmar fimmtán milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum. Verður sú upphæð látin renna til átta aðila að þessu sinni en þeir eru: Minningarsjóður Ölla, Minningarsjóður Ragga Margeirs, Hæfingarstöðin, Þroskahjálp á Suðurnesjum, Velferðarsjóður Suðurnesja, Öspin, Eikin og Skjólið.
Sævar Sævarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Blue Car Rental, sagði gríðarlega ánægju innan fyrirtækisins með vel heppnaða hátíð og ekki síst þá staðreynd hvað söfnunin tókst vel. „Þakklæti er í raun það fyrsta sem kemur í hugann eftir svona hátíð. Við sem fyrirtæki leggjum mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð og reynum að vera dugleg að styðja við bakið á íþróttum og hinum ýmsu málefnum í nærsamfélagi okkar. Það er augljóst að sá hugsunarháttur er víðar og sést hann best hjá þeim fjölmörgu fyrirtækjum, samstarfsaðilum og einstaklingum sem lögðu söfnuninni lið og gerðu það að verkum að þetta góðgerðarfest okkar og söfnunin í kringum hana var eins vel heppnað og raun bar vitni.“