Gengur bæjarfjallið oft á dag
-Arnar Már Ólafsson missti 50 kíló eftir að hann fór að stunda göngur
Það verður seint sagt að Grindvíkingurinn Arnar Már Ólafsson sitji auðum höndum. Fyrir sex árum síðan hóf hann að stunda göngur. Þannig hefur hann umturnað lífi sínu og bætt heilsu sína til muna. Árið 2010 var Arnar rétt rúm 130 kg. Nú eftir að hafa gengið Þorbjörninn nánast sundur og saman og Reykjanesið endilangt, er hann um 50 kílóum léttari. Arnar gengur aðallega á Þorbjörn, bæjarfjallið fallega. Hann er ekki nema nokkrar mínútur að skokka upp fjallið og suma daga fer hann oft á dag. Einn daginn fór hann 15 sinnum upp fjallið en nafn hans er orðið ansi áberandi í gestabókinni á toppi fjallsins. „Það er smá pása hjá mér í bókinni. Þannig að ég klári nú ekki enn eina bókina,“ segir Arnar léttur í lundu.
„Einhvers staðar verður maður að byrja. Finna það sem manni finnst skemmtilegt. Ég hugsaði mér að nota náttúruna enda er hún yndisleg. Af hverju ekki að nýta þessa náttúru sem við eigum hérna í Grindavík, þetta er algjör paradís.“ Arnar ætlar sér stærri hluti hvað göngur varðar og langar hann mikið til þess að ganga Laugarveginn - Þórsmörk og Landmannalaugar.
Arnar segist ekki vera nema 4 til 5 mínútur upp fjallið ef færðin er góð en hann notast alltaf við göngustafi á ferðum sínum. Hann lætur ekki veður stoppa sig og fer út að ganga í hvaða aðstæðum sem er. „Þetta er bara hugarfar. Mér finnst aldrei eins og það sé vont veður á Íslandi,“ segir göngugarpurinn. Málið sé bara að klæða sig vel og taka með sér kakó og nesti og rölta upp á næsta fjall. Þetta er ekki flóknara en það.
Arnar segir að honum líði nánast eins og hann sé veikur ef hann kemst ekki í göngu. „Þá er ég alveg ónýtur og slappur. Þetta er orðin hálfgerð fíkn. Matarfíknin er farin og hreyfifíknin tekin við,“ segir þessi öflugi strákur og hlær.
Arnar, sem er 23 ára, starfar sem húsvörður í Hópsskóla. Hann er einnig liðsstjóri hjá meistaraflokki Grindavíkur í fótboltanum þar sem hann leggur mikinn metnað í starfið og er jafnan mættur til þess að undirbúa kappleiki nokkrum tímum á undan öðrum.
Mokaði innkeyrslur Grindvíkinga
Það væri nær að virkja orkuna úr Arnari en á dögunum tók hann sig til og mokaði fjöldann allan af innkeyrslum og gangstígum hjá bæjarbúum. Þar lá heill vinnudagur í valnum og fjölmargir þökkuðu Arnari fyrir hjálpina á samfélagsmiðlunum.
Flestar helgar er Arnar á ferðinni. Síðustu helgi pakkaði hann góðu og kraftmiklu nesti og gekk samtals í 16 klukkustundir þá helgina víða um Reykjanesið. Hann stefndi svo á að ganga 20 tíma helgina eftir að hann hitti blaðamann Víkurfrétta þannig að aldrei er dauð stund hjá Arnari.
Arnar hefur breyst mikið eftir að hann fór að stunda göngur af krafti.
Hér má sjá gestabókina á Þorbirni. Fáir jafn öflugir og Arnar.