Heimatónleikar og söfnun á Sólseturshátíð
Yfir hundrað gestir mættu á tónleika við Melbraut 6 í Garði síðasta miðvikudag á Sólseturshátíð. Þar búa Jónína Magnúsdóttir og Guðni Ingimundarson ásamt börnum sínum. Bæjarfulltrúar boðuðu í sameiningu til tónleikanna en tilgangurinn með þeim var að að safna pening fyrir dreng í 6. bekk í Gerðaskóla sem hefur greinst með hvítblæði.
Að sögn Jónínu var ánægjulegt hversu margir mættu á tónleikana en rúmlega 170.000 krónur söfnuðust. Allir tónlistarmennirnir sem komu fram á tónleikunum eru úr Garði en það voru þau Kolfinna Jóna Baldursdóttir, Atli Reynir Baldursson, Íris Einarsdóttir, Íris Benediktsdóttir, Aðalheiður Lind Björnsdóttir, Víkingarnir, Vignir Bergmann og Sigurður Smári Hansson.
Söfnunin heldur áfram og verður ágóðinn afhendur drengnum og fjölskyldu hans 1. júlí. Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt framlag inn á reikning 0157-26-255. Kennitala reikningsins er 510286-2279. Fjárgæslumaður reikningsins er Ágústa Ásgeirsdóttir hjá Landsbankanum en hann er í eigu Knattspyrnufélagsins Víðis.
Knattspyrnufélagið Víðir ætlar að styrkja drenginn og fjölskyldu hans og hvetur önnur félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga til að gera slíkt hið sama.
Rúmlega hundrað gestir mættu á heimatónleikana. Ljósmynd/ÁsmundurFriðriksson