Herraklippingar hjá strákum – krullur og fléttur hjá stelpum
„Allt leyfilegt í dag. Sumar stelpur gera greiðslurnar sjálfar,“ segir Margrét Rut Sörensen á Primos hár og dekur.
„Fermingargreiðslur í dag og síðustu ár hafa verið með svipuðu sniði, það er allt frá krullum, fléttum og snúningum. Þetta fer eiginlega allt eftir persónunni hvort hún vill hafa litla eða mikla greiðslu,“ segir Margrét Rut Sörensen á hárgreiðslustofunni Primos hár og dekur í Reykjanesbæ.
Margrét segir að það sé eiginlega allt leyfilegt í fermingargreiðslum og margar stelpurnar eru líka farnar að gera greiðslunar sjálfar. „Þær eru margar mjög klárar að gera greiðslur, förðun og neglur þar sem samfélagsmiðlarnir sýna hvernig þetta er gert,“ segir Margrét Rut.
Með strákana er líka allt leyfilegt í klippingum. „Þeir vilja vera með allt frá „skin-fade“ klippingu sem er mjög snöggt í hliðunum og meira ofan á eða bara venjulega herra klippingu. Þeir eru nú meira að spá í hvaða skóm og fötum þeir klæðast. Í ár voru það Old School Jordan sem þeir sóttu mikið í og allt frá dökkbláum jakkafötum yfir í dökkar buxur og ljósan jakka. En svo eru þeir allir misjafnir í þessu, hvaða stíl þeir velja.“