Jólaljósin tendruð í Suðurnesjabæ
Jólaljósin voru tendruð á jólatrjám í Suðurnesjabæ á fyrsta sunnudegi í aðventu. Að vanda voru það yngstu nemendur grunnskólanna í bæjarfélaginu sem sáu um að tendra ljósin.
Í Sandgerði voru það þau Arishka og David, nemendur við Sandgerðisskóla, sem sáu um að kveikja ljósin á trénu, sem stendur við íþróttamiðstöðina og grunnskólann. Þau nutu aðstoðar Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra, við að tendra ljósin. Í Garði voru það Snædís Irja og Elmar Freyr sem kveiktu jólaljósin ásamt bæjarstjóranum.
Í bæði Sandgerði og Garði léku nemendur tónlistarskólanna jólalega tónlist og jólasveinar komu í heimsókn. Þá sá ungmennaráð Reynis og Víðis um að gefa öllum sem vildu heitt súkkulaði og piparkökur í kuldanum, en frostið beit í kinnar á báðum stöðum síðasta sunnudag.