Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Leikfélag Keflavíkur með styrktarsýningu á „Allir á Trúnó“
Þriðjudagur 30. apríl 2019 kl. 19:36

Leikfélag Keflavíkur með styrktarsýningu á „Allir á Trúnó“

Styrkir verkefnið Fröken Ragnheiði

Revía Leikfélags Keflavíkur hefur nú gengið fyrir fullu húsi frá frumsýningu og hafa nú um 1900 manns mætt í Frumleikhúsið og skemmt sér konunglega. Fyrirhugað var að halda tvær lokasýningar um liðna helgi og var uppselt á þær báðar.
Vegna góðs gengis kviknaði sú hugmynd innan leikarahópsins að halda eina styrktarsýningu í lokin til styrktar góðu málefni og sýna þannig þakklæti til bæjarbúa fyrir góða aðsókn. Tekin var ákvörðun um að styrkja verkefnið Fröken Ragnheiði sem verið er að fara af stað með hér á Suðurnesjum í haust. Hannes Friðriksson formaður Rauða krossins hér á Suðurnesjum segir verkefnið þarft og því miður er hópurinn að yngjast sem notar vímuefni í æð og því þarf að bregðast við. Þá segir hann jafnframt að þetta verkefni geti hjálpað þeim sem hafa leiðst út í neyslu og því afar mikilvægt að það sé til staðar. Það er því afar ljúft að segja frá því að Leikfélag Keflavíkur mun styrkja þetta góða málefni með því að halda aukasýningu sunnudaginn 5. maí kl. 20.00 á „Allir á trúnó“ þar sem allur ágóði sýningarinnar rennur óskiptur til verkefnis Fröken Ragnheiðar. Miðaverð er lágmark 3000 krónur en að sjálfsögðu er fólki velkomið að greiða hærra gjald og leggja þannig meira af mörkum til þessa þarfa verkefnis. Fyrir þá sem ekki komast á styrktarsýninguna þá verður einnig almenn sýning, föstudaginn 3. maí kl. 20.00.  

Að lokum þakka aðstandendur sýningarinnar bæjarbúum fyrir frábærar viðtökur og hvetja um leið þá sem ekki hafa séð sýninguna að fjölmenna um helgina. Sérstaklega er skorað á fyrirtæki á svæðinu að kaupa miða fyrir sína starfsmenn og styrkja þannig starfsandann og gott málefni í leiðinni. Það má bara helst enginn missa af þessu! Miðapantanir eru á lk.is og í síma 421-2540.

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024