Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Listamaðurinn þrífst á umhverfi sínu
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 15:00

Listamaðurinn þrífst á umhverfi sínu

Eftir að hafa verið með mörg járn í eldinum ákvað Bragi Einarsson að forgangsraða í í lífinu. Nú hafa fjölskyldan, vinnan og málaralistin forgang hjá Braga en annað hefur verið lagt til hiðar en Bragi hefur verið liðtækur söngvari í kórum á svæðinu. Þó verður að segja að málaralistin skipi mjög stóran sess í lífinu því auk þess að verja löngum stundum á vinnu stofu sinni í Garði, þá er Bragi kennari á listnámsbraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Lista- og menningarfélagið í Garði hefur aðstöðu í svokölluðu Listahorni að Sunnubraut 4 í Garði og þar er Bragi með vinnustofu sína þar sem hann vinnur að olíumálverkum í ýmsum stærðum. Á veggjum vinnustofunnar má svo sjá afrakstur vinnunnar í olíuna síðustu tíu árin eða svo. Bragi hefur verið að fást við olíumálverk í um 15 ár en áður fékkst hann meira við vatnslitamyndir. Hann segist enn taka í vatnslitina og er einnig að vinna með akrílliti en olían hafi núna yfirhöndina. Olíumálverkinu fylgi reyndar meiri sóðaskapur og það kalli á meira pláss.

Bragi segir að viðfangsefnin séu svipuð í vatnslita- og olíumyndum. Húsin og landslagið séu á báðum stöðum. Hins vegar hafi hann farið meira út í að mála fígúrur ýmsiskonar eftir að hann fór að einbeita sér að olíumálverkinu.

Dramatískan himinn við gamla vitann

Bragi segist ekki fylgja neinum tískubylgjum þegar kemur að málverkinu eða viðfangsefnum. Hann segir gamla vitann á Garðskaga þó alltaf vera vinsælan og sýnir blaðamanni málverk af vitanum sem hann hefur verið að vinna í á fimm ára tímabili. Hann sé alltaf að betrumbæta myndina, breyta litum og samsetingum, þó svo formin séu áfram eins.

„Mér þykir skemmtilegra að vera með dramatískan himinn í myndum, frekar en heiðbláan sumarhiminn, svona póstkortamynd,“ segir Bragi og brosir. Hann segir skýjafarið yfir Faxaflóa oft vera ótrúlega skemmtilegt og það rati stundum í myndirnar.

Bragi fangar oft viðfangsefni sín í ljósmyndir. Hann segist styðjast við formin úr ljósmyndinni en litina túlki hann eftir eigin höfði og geri þá sterkari og setji meiri hita í myndirnar.

Klippimynd af Clint Eastwood verður til

Þegar blaðamaður heimsótti Braga á vinnustofuna var hann að leggja lokahönd á mynd af rekaviðardrumbum og þá voru myndir af mosa í vinnslu. Þá vakti risastór klippimynd af Clint Eastwood athygli þar sem hún hangir á hvítum vegg á vinnustofunni. „Erró-mynd“ myndu margir kalla verkið en hann er svo sem ekki einn um þessa gerð myndlistar.

„Erró hefur engan rétt á klippimyndum, frekar en Ásgrímur Jónsson á landslaginu,“ segir Bragi. Hann segist eiga eftir um 20 vinnustundir í klippimyndinni og sé að leggja grunninn að fleiri slíkum myndum en ætli að þróa tæknina við vinnslu þeirra áfram.

Menning er eins og svampur

Framundan segir Bragi sé að hreinsa hugann og klára þau verk sem eru í vinnslu. Spurður um menningar- og listalífið á Suðurnesjum þá segir Bragi að honum leiðist matreidd menningarstarfsemi og hann segir menninguna aldrei verða ríkari en fólkið í byggðarlanginu.

„Menning er eins og svampur. Hann er þarna og ef hann fær ekki vökvun, þá þornar hann upp. Maður þrífst á umhverfinu sem maður er í. Ef það veitir ekki vökvun, þá koðnar allt niður. Við verðum að vera víðsýnni í þeim möguleikum sem við höfum í listum og menningu. Það er fullt af fólki hér á svæðinu sem getur gert alveg ótrúlega hluti, en það er með þetta fólk eins og svampinn, því líður eins og svampnum sem er orðinn þurr, því samfélagið nær ekki að vökva það. Það fær ekki samfélagslega örvun. Sem listamaður þarf maður á þessari örvun að halda til þess að það verði einhver þróun. Annars er maður bara að hjakka í sama farinu,“ sagði Bragi Einarsson, myndlistarmaður í Garði að lokum.

(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024