Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Listræn fjölskylda í gamla bænum
Ísold, Már og Lína Rut. VF mynd: Hildur
Sunnudagur 11. desember 2016 kl. 06:00

Listræn fjölskylda í gamla bænum

-Már og Ísold halda ókeypis jólatónleika á Ránni - Núi og Nía er nýtt app Línu Rutar

Það er nóg um að vera hjá listakonunni Línu Rut Wilberg og fjölskyldu hennar en á dögunum kom út nýtt app sem er gert út frá fyrstu barnabók Línu, Núa og Níu, og heitir sama nafni. Lína Rut var líka að gefa út nýja bók, Þegar næsta sól kemur, en það er þriðja bókin úr því ævintýri. Már og Ísold, börn Línu Rutar, ætla að endurtaka leikinn frá því í fyrra og halda ókeypis jólatónleika á Ránni, en hafa fært út kvíarnar og verða með stærra „show“ í ár.

Appið Nía og Núi er fyrsta appið sem gert er út frá íslenskri barnabók og er gefið út af NB forlagi, eins og bækurnar. Í appinu er hægt að lesa bókina, hlusta á hana á íslensku og ensku, auk þess að spila leiki. Einnig er búið að gera stutta teiknimynd um bókina í tvívídd. „Þetta er stór stund. Mér skilst að þetta sé sambærilegt og þegar fyrsta barnabókin var prentuð í lit,“ segir Lína um útgáfu appsins. Hún segist sjálf ekki vera tæknivædd og sé því að fara leið sem er ný fyrir henni. „Þetta eru spennandi tímar. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta. Það er gaman að sjá ævintýrið sitt lifna svona við. Þetta er góð kynning og ég er þakklát forlaginu fyrir að velja mína sögu í verkefnið.“

Um hvað eru bækurnar?
Hugmyndin kviknaði fyrir um það bil 10 árum síðan en þá ætlaði ég bara að búa til fígúru og safna fjármunum til styrktar fötluðum. Þá hét Núi reyndar „Happyface“ en mér fannst það ekki ganga eftir að hann endaði í bók. Síðan fóru fleiri fígúrur að „poppa upp“ í kollinum á mér, ég kom þeim frá mér á blað, lék mér með þær og þróaði svo hægt og rólega fór að myndast saga í kringum þær og að lokum var ég komin með efnivið í heila bók. Ég labba oft fallega göngustíginn hér meðfram sjávarsíðunni og ákvað að nota umhverfið þaðan í heiminn þeirra, og hafið, ég elska hafið og finnst gott að búa nálægt því og því skipar hafið og vatnið líka stóran sess í bókinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég fór öfugt á við flesta í gerð bókarinnar því ég myndskreytti alla söguna fyrst, síðan kom textinn. Þar sem ég er enginn rosalegur penni hafði ég áhyggjur af því að það tæki mig allt of langan tíma að skrifa hana. Ég fann að ég þurfti að fara að koma þessu frá mér enda búið að vera í 10 ár í vinnslu. Ég fékk því Þorgrím Þráinsson í lið með mér. Hann kom þessu í orð og lét ævintýrið lifna við.

Að skrifa sögu út frá myndskreytingum er kannski ekkert auðvelt, svo að í annarri bókinni, Nía fýkur burt, þá kom ég með grófa hugmynd að söguþráð og leyfði Þorgrími að skrifa söguna fyrst og síðan myndskreytti ég eftir á. Í þriðju bókinni, Þegar næsta sól kemur, gaf ég Þorgrími frí og gerði þetta bara sjálf, bókaútgefandinn hvatti mig til þess og ég ákvað að prufa og sé ekki eftir því, það er mun skemmtilegra að gera þetta allt saman sjálf og mér finnst heildarmyndin koma betur út með þessu móti.

Þegar næsta sól kemur fjallar um Níu. Hún lendir í ævintýrum ein síns liðs og þarf að treysta á eigin kosti og í lokin áttar hún sig á að hún er ekki eins ómöguleg og hún stundum heldur. Nafn þeirrar bókar, „Þegar næsta sól kemur,“ er komið frá setningu sem Nói, sonur minn notaði ávallt þegar hann var ungur og þýddi „á morgun.“ Mér fannst þetta svo falleg setning og langaði að gera eitthvað með hana. Bókin er því búin að vera í vinnslu síðastliðin sjö ár.  Nói elskaði líka að klæða sig í búninga og mig langaði að blanda þessu saman, Þetta var mikið púsluspil og miklar pælingar í endalausum smáatriðum.

Næst á dagskrá hjá listakonunni er sýning í London á listaverkum hennar, en hún verður opnuð í janúar næstkomandi. Svo kemur út nýtt ævintýri fyrir næstu jól. „Vinnutitill þeirrar bókar er Petra Puttalingur en það er 20 ára gömul saga sem ég las fyrir börnin mín í gegnum árin. Hún fjallar um Petru litlu sem býr í málverki og upplifir sig eina í heiminum. Hún telur sig svo finna föður sinn og leggur af stað í langt ferðalag til þess að hitta hann,“ segir Lína Rut og bætir við að auk þess sé hún með fleiri hugmyndir, ný ævintýri sem vonandi líta dagsins ljós einn daginn.

 

Upphitun fyrir jólin

Listin rennur greinilega í blóðinu en Már og Ísold eru bæði tónlistarmenn. Már spilar á píanó, syngur og semur tónlist og Ísold syngur og semur einnig tónlist, en hún er útskrifuð úr jazz söng frá FÍH og er þessa dagana að keppa í The Voice. Þau ætla að halda jólatónleika á Ránni þann 14. desember og með þeim verða þeir Jón Ragnar Magnússon á gítar, Björn Kristinsson á saxófón, eða Bjössi sax eins og hann er oft kallaður, og Einar Júlíusson, eða Einsi Júll, mun syngja. Svo er aldrei að vita nema þau lumi á óvæntum gestum. „Þetta er hugsað sem eins konar upphitun fyrir jólin. Tilefni fyrir fólk að eiga notalega stund saman og komast í jólaskap. Við erum að skipuleggja þetta sem „show“ eða skemmtun fyrir alla og það er ókeypis aðgangur,“ segja Már og Ísold.

„Í fyrra var Már með tónleikana og ég söng nokkur lög með okkur en núna erum við saman og ákváðum að gera þetta aðeins umfangsmeira. Svo á næsta ári verðum við með heilt „big band“ á bak við okkur,“ segir Ísold og skellir upp úr. Hún segir þau Má þekkja vel inn á hvort annað þegar þau spila og syngja saman, enda æfa þau oft saman og hjálpa hvort öðru þegar þau eru að semja eigin tónlist. „Ég er mikið hér í Keflavík þar sem ég vinn sem flugfreyja. Og þegar ég er hér þá biður Már mig oft um að syngja með einhverju lagi sem hann var að semja á píanóið eða ég bið hann um að hlusta á lag sem ég var að semja og segja mér hvort honum finnist það alveg hræðilega ömurlegt.“ segir Ísold. Hún segist vera orðinn mikill Keflvíkingur í sér þótt hún hafi ekki alist upp hér og að næsta skref sé að flytja hingað. „Uppáhalds fatabúðin mín, Galleri, er hér, uppáhalds veitingastaðurinn minn, Thai Keflavík, er hér og uppáhalds staðurinn minn er hérna meðfram sjónum.“

Meðal þess sem gestir tónleikanna munu fá að heyra er jólalag sem Már samdi þegar hann var tíu ára og bjó í Lúxemborg. „Það heitir Jólin í dag og ég er tiltölulega nýbúinn að gefa það út. Það var í útsendingu Vilhjálms Guðjónssonar og er til í tveimur útgáfum. Annars vegar þar sem ég syng með barnakór og svo þar sem einungis barnakórinn syngur. Við gerðum tónlistarmyndband við það lag sem hægt er að finna á Youtube. Það sem mér finnst svolítið skemmtilegt við tónlistarmyndbandið er að ég fór og talaði við forstöðukonuna á leikskólanum Vesturbergi og bað hana um að fá börnin til að teikna jólamyndir. Þau létu mig svo hafa um fimmtíu myndir sem við svo settum saman og gerðum myndbandið úr. Mér fannst það koma skemmtilega út,“ segir Már að lokum.