Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rauð jól í Berlínarborg
Myndir Eyþór Sæmundsson.
Fimmtudagur 26. desember 2013 kl. 11:00

Rauð jól í Berlínarborg

-Glühwein yljar líkama og sál

Blaðamaður Víkurfrétta Eyþór Sæmundsson er búsettur í Berlínarborg þessi misseri. Þar hefur hann undanfarið verið með myndavélina á lofti og rannsakað jólamenningu hjá Þjóðverjum. Ýmislegt er öðruvísi í ríki Angelu Merkel. Maturinn er ekki eins góður, hér hefur ekkert snjóað og maður fær bara einu sinni í skóinn.

„Ég hef upplifað jólin víða í gegnum tíðina. Á ströndum Kanaríeyja, á sundlaugarbakka í Flórída, í Vínarborg og núna í Berlín. Þar er ég búsettur um stund og hef undanfarið notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða þegar kemur að jólunum. Þjóðverjar eru ekki duglegir að skreyta heimili sín, hvort sem það er að utan eða innan, en ferðamannastaðir og verslunarkjarnar eru þó skreyttir hátt og lágt. Jólamarkaðir í Þýskalandi eru heimsfræg fyrirbæri og hér í Berlín er aragrúi af slíkum mörkuðum. Þar safnast fólk saman og fær sér snarl en þó aðallega til þess að hitta vini og fá sér í aðra tána. Sérstakt jólaglögg er afar vinsælt hér í landi, en það kallast Glühwein, en það er drykkur sem settur er saman úr hituðu rauðvíni, kanil, negul og ýmsum berjum. Það eru til ótal afbrigði af drykknum og m.a. rákumst við á íslenska útgáfu af drykknum. Við könnuðumst satt best að segja lítið við drykkinn sem var gerður úr rommi, dökkum bjór og appelsínusafa. Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt í útlöndum. Það er notalegt að vita til þess að alltaf er stutt í næsta bás sem selur Glühweinið góða en það yljar vel á köldum vetrarkvöldum. Ristaðar hnetur og möndlur eru afar vinsælar hér á jólamörkuðum en þær eru húðaðar með karamellu og ilmurinn af þeim er alveg sérstaklega lokkandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þjóðverðar fá sér í aðra tána á aðfangadag

Hefðir og venjur eru misjafnar milli landa og eiga Þjóðverjar sér nokkrar hefðir sem við könnumst lítið við heima á Fróni. Þýskaland er stórt og venjurnar eru a.m.k. jafn margar og sambandslöndin innan ríkisins eru mörg. Hér er t.a.m. aðeins einn jólasveinn en hann kallast Sankti Nikulás. Hann kemur til byggða þann 6. desember og gefur börnum gott í skóinn. Við Íslendingar erum vön að skilja skóinn eftir í glugganum en hér tíðkast það að setja skótauið  fyrir framan útidyrahurðina. Einn jólasiður sem tíðkast í Þýskalandi þótti mér sérstakur. Á aðfangadag eru Þjóðverjar vanir að drekka töluvert magn af áfengi, bæði með matnum og síðar um kvöldið. Þá hittast gjarnan vinir og fara út á knæpu eða halda veislur í heimahúsum. Þetta yrði líklega litið hornauga á Íslandi en sjaldgæft er að boðið sé upp á nokkuð sterkara en malt á aðfangadag.

Jólaverslunin er að sjálfsögðu af svipuðum toga og heima á Íslandi. Í verslunarmiðstöðvum er ys og þys og sama stressið og við þekkjum frá heimahögunum. Andstæðurnar í Berlín eru þó skemmtilegar. Hér eru nútímalegar byggingar með risastórum glerhúsum og tilheyrandi verslunarkjörnum. Þegar farið er í eldri hverfin eru fleiri litlar huggulegar búðir þar sem „kaupmaðurinn á horninu“ hefur hreiðrað um sig. Það sem einkennir borgina er að maður þarf að hafa örlítið fyrir því að sækja sér jólaandann. Fyrir utan markaði og stórar verslanir er ekki ýkja jólalegt á götum borgarinnar. Snjóleysið hefur líklega eitthvað með það að gera að ekki er eins  jólalegt og heima á Íslandi.

Jólamarkaðurinn í Charlottenburg er gríðarlega stór og vinsæll. Öll kvöld vikunnar er líf og fjör við þessa fyrrum konungshöll.Höllin í öllu sínu veldi. Múgur og margmenni berja dýrðina augum. Falleg lýsing við höllina í Charlottenburg hverfinu.
Glühwein yljar, hressir og kætir í svartasta skammdeginu. Ég er ekki frá því að hér eftir verði jólahefð hjá mér að dreypa á örlitlu Glühwein yfir hátíðirnar. Það er vinsælt að hitta vini og kunningja á jólamörkuðum og fá sér í aðra tána. Flestir gæta hófs en einnig er oft líf í tuskunum.

Íslenskt jóla-Glühwein. Uppskriftin er romm, dökkur bjór og appelsínusafi. Bragðast nokkuð vel en ekki kannast ég við að þetta sé eitthvað sér íslenskt. Í íslenska básnum var boðið upp á harðfisk með glögginu og gamla góða Góu Hraunið, það gladdi okkur Íslendingana mikið.

Á jólamörkuðum eru gjarnan sett upp ýmis skemmtitæki og finna því börn og fullorðnir eitthvað við sitt hæfi.

Hér má sjá vinsælt jólaskraut í Þýskalandi en annars eru Þjóðverjar ekki eins duglegir og við Íslendingar að skreyta. Hér er t.d. fremur sjaldgæft að sjá jólaljós í gluggum.

[email protected]