Skefur af sér kílóin fyrir gott málefni
Styrkir Einstök börn í átakinu
Keflvíkingurinn Einar Skaftason hefur ákveðið að láta gott af sér leiða um leið og hann etur kappi við aukakílóin. Friðrik Bergmannsson vinur hans skoraði á hann að huga aðeins að heilsunni og um leið myndu nokkur kíló líklega hverfa á braut. Vinur Einars ætlar að borga sjálfur 500 krónur fyrir hvert kíló sem Einar missir þangað til 17. janúar á næsta ári, en sjálfur ætlar Einar að borga 1000 krónur á kílóið. Hann ætlar um leið að skora á aðra að gefa til góðra málefna, en Einar ætlar að styrkja Einstök börn sem er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Öllum er frjálst að styrkja málefnið og hvetja Einar áfram í leiðinni.
Einar starfar sem flugöryggisvörður hjá Isavia og er þegar byrjaður að æfa af fullum krafti í Sporthúsinu sem ætlar að styrkja Einar vel í baráttunni með vænum framlögum, en þeir félagar vonast eftir því að fleiri fyrirtæki fylgi í kjölfarið. Þegar átakið hófst var Einar 131,9 kg og mældist með 34,5 fituprósentu. Tekin voru af honum mál og ástandið kannað á kappanum í bak og fyrir. Hann féllst á að leyfa okkur á Víkurfréttum að fylgjast með ferlinu en hann vonast til þess að fleiri taki þátt og styrki góð málefni.
Þeir sem vilja svo taka þátt í þessu með Einari geta sent póst á [email protected]
Einar var mældur svona þann 17. júlí:
Brjóst: 126
Mitti:131
Mjaðmir 124
Rass: 123
Læri: 69
Hendi: 37.5
Fitu prósenta: 34.5
Kg: 131.9