Stóru-Vogaskóli 150 ára
Það var mikið um dýrðir í Tjarnarsal Stóru-Vogaskóla um síðustu helgi þegar 150 ára afmæli skólahalds í Vogum og á Vatnsleysuströnd var fagnað en barnaskólinn í Vogum er sá þriðji elsti á landinu og aðeins einn skóli í Reykjavík og annar á Eyrarbakka eru eldri. Gerðaskóli í Garði er svo þremur vikum yngri en skólinn í Vogum.
Salurinn var þétt setinn velunnurum skólans til margra ára sem voru mættir til að fagna tímamótum með skólanum sínum og njóta veitinga sem Kvenfélagið Fjóla sá um.
Ræðuhöldum var haldið í lágmarki og þau brotin upp með tónlistarflutningi sem þau Arnbjörg Hjartardóttir, nemandi, og Bent Marinósson, kennari, sáu um. Þá lék Hrafnkell Karlsson á píanó þegar gestir mættu til hátíðarinnar. Hann er gamall nemandi Stóru-Vogaskóla.
Stóru-Vogaskóla bárust nokkrar gjafir á þessum tímamótum. Kvenfélagið Fjóla í Vogum færði skólanum þrjár hrærivélar fyrir heimilisfræðikennslu. Fræðsluþjónusta Suðurnesjabæjar og Voga færði skólanum peningagjöf og þá var einnig getið um gjöf sem skólanum barst nýlega. Það er hjartastuðtæki sem hjónin Ragnar Karl Þorgrímsson og Særún Jónsdóttir gáfu skólanum og hefur verið sett upp á aðgengilegum stað í skólabyggingunni. Þá færði Þorvaldur Örn Árnason, fv. kennari, skólanum sögu skólahalds í Vogum og á Vatnsleysuströnd í 150 ár. Söguna hefur Þorvaldur verið að taka saman síðasta árið og m.a. birt á síðum Víkurfrétta.
Þegar dagskrá var lokið á sal bauðst gestum að fara um skólann og skoða bygginguna og sýningu á verkefnum sem nemendur hafa unnið að í aðdraganda afmælisins. Einnig hafa verið sett upp veggspjöld í skólanum með brotum úr skólasögu sveitarfélagsins.