Það víkkar sjóndeildarhringinn að kynnast fólki
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir er FKA Suðurnes kona mánaðarins í Víkurfréttum
Nafn: Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir
Aldur: 42 ára
Menntun: Félagsráðgjafi
Við hvað starfar þú og hvar?
Verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ
Hver eru helstu verkefni?
Ég vinn með starfsfólki Reykjanesbæjar, samstarfsaðilum okkar og íbúum að framþróun samfélagsins í krafti fjölbreytileikans þar sem allir íbúar hafa jöfn tækifæri til þátttöku í lífi og starfi.
Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?
Reykjanesbær er vagga fjölmenningar á Íslandi, þótt víðar væri leitað. Hér erum við rík af margbreytileika mannlífsins, sem er helsta auðlind svæðisins.
Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera:
Við hjá Reykjanesbæ vinnum meðal annars að verkefni sem heitir Allir með þar sem við vinnum með skilvirkum hætti að því að öll börn séu þátttakendur í skipulögðu barnastarfi, að þau tilheyri þar sem þau taka þátt og þeim líði vel. Við miðum að því að allir sem starfa með börnum og í kringum börn fái fræðslu og þjálfun þannig að þau hafi verkfæri til þess að hjálpa börnum við þessi verkefni, þ.e. að taka þátt og tilheyra.
Við vinnum ótal mörg önnur verkefni sem öll miða að því að auka lífsgæði íbúa og stuðla að vellíðan og jöfnum tækifærum í samfélagi fjölbreytileikans. Til dæmis vinnum við víðtækar samfélagsgreiningar í samvinnu við Hagstofuna, við erum að þróa bætta samvinnu milli opinberra aðila með verkefni sem ber heitið Velferðarnet Suðurnesja og að auki koma að fjölmörgum reglubundnum verkefnum Reykjanesbæjar og huga að því að þau séu aðgengileg öllum íbúum Reykjanesbæjar, sama af hvaða uppruna fólk er.
Samhliða þessu hef ég líka verið að kenna og verið með vinnustofur og fyrirlestra um samfélag fjölbreytileikans. Það finnst mér líka einstaklega skemmtilegt, mér finnst gaman að spjalla um samfélagsleg málefni og velta því sífellt upp hvernig við getum gert betur og hvernig hvert og eitt okkar getur lagt hönd á plóg.
Hvað hefur þú verið að gera?
Ég útskrifaðist sem félagsráðgjafi árið 2006 og fór þá að starfa hjá Reykjavíkurborg þar sem ég kynntist mínum helstu fyrirmyndum í velferðarþjónustu. Störf mín fólu strax mikið í sér málefni fólks af erlendum uppruna. Árið 2012 hóf ég störf hjá velferðarráðuneytinu og þar starfaði ég líka með miklum reynsluboltum, sem ég hef búið að. Ég sinnti þar ýmsum stefnumótandi verkefnum í málefnum velferðarþjónustu og samfélagsins í heild, með áherslu á innflytjendur og flóttafólk.
Hvað ertu að gera núna?
Árið 2018 hóf ég störf hjá Reykjanesbæ sem verkefnastjóri fjölmenningarmála.
Framtíðarplön (svolítið sagan þín):
Við fjölskyldan erum mjög ánægð með að vera komin aftur á Suðurnesin og sjáum fyrir okkur að vera áfram hér. Krakkarnir eru ánægðir og samfélagið er notalegt.
Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum?
Ég er fædd og uppalin í Sandgerði og á þar sterkar rætur og góða vini og fjölskyldu. Eftir Fjölbrautaskóla Suðurnesja fluttumst við kærustuparið til Reykjavíkur og komum aftur fimmtán árum seinna sem hjón með þrjú börn. Við fluttum í Njarðvík árið 2016 og höfum því verið hér núna í bráðum sjö ár.
Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes?
Mér líst mjög vel á það og tel mikilvægt að konur á Suðurnesjum og verkefni þeirra séu sýnileg og að þær efli tengslanet sitt.
Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA?
Ég þekki góðar konur innan FKA og leist vel á félagsskapinn. Ég var líka viss um að félagsskapurinn og viðburðirnir myndu efla mig í leik og starfi.
Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
Það víkkar sjóndeildarhringinn að kynnast fólki sem ég held að ég hefði annars ekki kynnst og mér finnst það styrkja mig að heyra af konum vera að gera alls konar spennandi hluti og fást við krefjandi verkefni.
Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum?
Hér er ofurkraftur, þegar við virkjum hann í sameiningunni gerast töfrar.
Finnið kjarkinn og kraftinn til þess að segja það sem ykkur býr í brjósti og gera það sem ykkur langar, ekki er nú verra þegar það er í félagsskap góðra kvenna.
Eins hvet ég okkur öll til þess að velta því upp hvort við séum að skapa rými fyrir aðra og gefa þeim tækifæri til þess að taka þátt í samfélaginu, hvort sem það er á vinnustöðum, í foreldrasamfélaginu í kringum íþróttir barna okkar eða bara hvar sem er.
Greiðum götur hvers annars,
við erum saman í þessu.