Þingmaður tekur því rólega án síma og bíls
Verslunarmannahelgin hjá Páli Jóhanni Pálssyni
Víkurfréttir spurðu Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.
Páll Jóhann Pálsson er nýr þingmaður Suðurnesjamanna en hann er Grindvíkingur sem tekur því oftast rólega í kringum verslunarmannahelgina þar sem hann er í raun sáttur þegar hann þarf ekki að stíga upp í bíl eða tala í síma.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara? Oftast höfum við hjónin verið heima í rólegheitum þessa miklu ferðahelgi og ef veðrið verður skaplegt hér á Suðurnesjum verður það þannig. Við skreppum kannski á hestbak eða í stuttar gönguferðir. Strax eftir helgina förum við svo á heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín en þar verður hestur úr okkar ræktun að keppa, reyndar fyrir Danmörku.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér? Margar verslunarmannahelgar koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Auðvitað er ákveðinn sjarmi yfir æskuárunum í Galtalæk með foreldrum og systkinum og svo unglingsárin í Húsafelli og þeirri einu Þjóðhátíð sem ég fór á en hún var sú fyrsta eftir gos. Ferð á Laugarvatn með konu og sonum á unglingalandsmót kallar fram góðar minningar. Í dag nýt ég hvers dags sem ég þarf ekki að setjast upp í bíl eða tala í síma.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi? Tvímælalaust einkennir gott veður góða verslunarmannahelgi. Hér á Íslandi stendur allt og fellur með veðri. Það er ekki tilviljun að algengasta umræðuefnið er veðrið. Í minningunni tilheyrði Óli H. Þórðarson verslunarmannahelginni með góð ráð í umferðinni og auðvitað er góða skapið ómissandi um þessa helgi eins og allar aðrar helgar.