„Drullaðu þér heim“
Það er klárt mál að það er ekki auðvelt að vera í forsvari fyrir sóttvarnaraðgerðum. Hér á landi hefur hið svokallaða þríeyki staðið í forsvari fyrir aðgerðum. Þær aðgerðir hafa kostað efnahag íslensk þjóðarinnar svo marga milljarða að enginn getur í raun fest á því tölu hvað þeir verða að lokum margir.
Atvinnulíf á Suðurnesjum er í rúst því enginn landshluti hefur jafn hátt hlutfall af störfum sem á einn eða annan hátt tengjast flugi eða ferðaþjónustu. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru á engan hátt yfir gagnrýni hafnar. Útspil síðustu viku var um margt áhugavert. Golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu var lokað. Jafnframt var mælst til þess að höfuðborgarbúar héldu sig á höfuðborgarsvæðinu. Golfklúbbar á Suðurnesjum voru fljótir til að stökkva á vagninn og báðu golfþyrsta höfuðborgarbúa um að halda sig heima við. Fóru í lögregluhlutverkið. Heyrði meira sögu af ágætum mönnum úr Reykjavík sem voru reknir af golfvellinum í Sandgerði. Þeim var orðrétt sagt að „drulla sér heim“.
Þeir vissu svo sem að þeir voru ekki að fylgja tilmælum sóttvarnaryfirvalda um að halda sig á höfuðborgarsvæðinu en þeir voru í fullum rétti samkvæmt reglum frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem íþróttir utandyra eru heimilar og landlæknisembættið hvetur fólk til útivistar og hreyfingar. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hversu hissa einn úr hópnum var daginn eftir þegar hann rakst á Sandgerðinginn á næstu dælu að taka bensín í Costco. Slíkur var þá smitóttinn. Hann var tuttugu krónu virði á bensínlítrann. Allir í sama báti.
Það er vandlifað. Hvað þýðir í raun „gerum þetta saman“ og „allir í sama báti“ eða aðrir frasar sem í raun eru ekkert annað en orðin tóm? Hvað þýðir það þegar óheimilt er að leika golf á höfuðborgarsvæðinu en það má á Suðurnesjum? Er golf hættulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en ekki fyrir Suðurnesjamenn? Mega íbúar höfuðborgarsvæðisins ekki sækja atvinnu á Suðurnesin en Suðurnejsamenn mega fara í vinnuna í Reykjavík?
Óskýr skilaboð frá sóttvarnaryfirvöldum gera lítið annað en að ala á óeiningu. Látum ekki draga okkur þangað. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það persónulegu sóttvarnirnar sem skipta mestu máli. Þvoum hendur. Sprittum hendur. Munum tveggja metra fjarlægð. Fylgjum leiðbeiningum um hvernig nota á grímu. Hún virkar víst illa ef hún hylur bara hökuna.